Fréttir

Hagvöxtur á Suðurnesjum frá hruni einstakur
Mánudagur 28. janúar 2019 kl. 16:10

Hagvöxtur á Suðurnesjum frá hruni einstakur

Frá hruni bankanna hefur framleiðsla vaxið meira á þremur landsvæðum: Suðurnesjum, Suðurlandi og Norðurlandi eystra þar sem hagvöxtur var 15-18%, langt yfir landsmeðaltali sem var 10%. 
 
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var af Byggðastofnun um hagvöxt landshluta frá hruni og fram til 2016 og greint er frá á vef Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja.
 
Meginskýringin á hagvexti á árunum 2008 til 2016 er vöxtur í þjónustugreinum sem snúa margar að ferðajónustu. Sá vöxtur ræður mestu um hagvöxt á Suðurnesjum, þar sem Keflavíkurflugvöllur hefur þanist út. Flugvöllurinn var næstmesta hagvaxtarsvæðið á árunum 2008 til 2016, ekki langt á eftir Suðurlandi og eru ferðamannagreinarnar verslun, hótel, samgöngur og fleira hvergi eins mikilvægar á Suðurnesjum en hlutur þeirra óx úr 22% árið 2009 í 29% 2016. Umferð um völlinn jóst um 160% á tímabilinu samkvæmt upplýsingum Hagstofu.
 
Vöxtur í sjávarútvegi tengist Keflavíkurflugvelli, en árið 2016 var 88% meira flutt út af nýjum fiski með flugvélum en 2008. Þessi breyt­ing skil­ar sér í mun hærra afla­verðmæti, en fersk­ur fisk­ur sem flutt­ur er út með flugi get­ur skilað allt að 20% hærra verði til fram­leiðand­ans held­ur en fryst­ur fisk­ur.
 

Eftirsótt búsetusvæði

 
Vöxturinn á Suðurnesjum var geysimikill eftir 2012 og hefur fólki fjölgað mikið á svæðinu. Suðurnesin hafa verið eftirsótt til búsetu og eru nú orðið fjórða stærsta sveitarfélag landsins. Á árunum 2016 og 2017 fluttu rúmlega þúsund fleiri frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja og Suðurlands en hina leiðina. Fram að hruni bankanna var straumurinn líka í þessa átt. Ætla má að dýrt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu ráði hér nokkru. Margir sækja áfram vinnu í höfuðborginni.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024