Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hagsmunasamtök heimilanna: Hvarflaði aldrei að sýslumanni að kanna aðstæður mannsins?
Miðvikudagur 28. júní 2023 kl. 10:28

Hagsmunasamtök heimilanna: Hvarflaði aldrei að sýslumanni að kanna aðstæður mannsins?

„Hagsmunasamtök heimilanna fordæma framgöngu allra hlutaðeigandi í þessu dapurlega máli!,“ og vísa þar til fréttar RÚV frá því í gærkvöldi þar sem ungur öryrki í Keflavík er því sem næst allslaus eftir að sýslumaður samþykkti tilboð í hús hans á nauðungaruppboði upp á einn tuttugasta af markaðsvirði. Hann og fjölskyldan verða borin út á föstudag og vita ekki hvað tekur við.
Hagsmunasamtökin birta pistil á Facebook þar sem segir: „Án þess að hafa allar upplýsingar um þetta tiltekna mál eða forsögu þess, vekur þetta óhjákvæmilega upp margar áleitnar spurningar.

  1. Vissu bæjaryfirvöld sem voru meðal kröfuhafa ekki af aðstæðum unga mannsins? Vöknuðu á engu stigi spurningar um að vanskilin gætu tengst fötlun hans þannig að með réttri aðstoð gæti hann mögulega staðið í skilum með gjöldin svo hann þyrfti ekki að missa heimili sitt?

  2. Hvarflaði aldrei að sýslumanni að kanna aðstæður mannsins áður en tekin var ákvörðun um að hefja nauðungaruppboð á heimili hans, ekki síst með hliðsjón af því hversu lágar skuldir var um að ræða með tilliti til verðmætis hússins? Kynnti sýslumaðurinn ekki fyrir honum möguleikann á því að selja húsið á almennum markaði til að fá eðlilegt verð svo hann yrði ekki allslaus eftir söluna?

  3. Hvernig gættu hlutaðeigandi yfirvöld að lögbundnum rannsóknar- og leiðbeiningarskyldum sínum gagnvart þessum aðila eða skyldum til að veita félagslega aðstoð með hliðsjón af stöðu hans? Hvernig samræmist framganga þeirra til dæmis Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem á meðal annars að tryggja réttindi fatlaðra til viðunandi húsnæðis?

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma framgöngu allra hlutaðeigandi í þessu dapurlega máli! Ef rétt væri staðið að málum hefði aldrei átt að þurfa að koma til þess að svona langt yrði gengið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í kjölfar bankahrunsins misstu 15.000 fjölskyldur heimili sín. Í allt of mörgum tilfellum fóru uppboðin fram með þessum hætti þar sem fasteignir voru seldar fyrir brotabrot af raunvirði.

Það er skammarlegt að við skulum heyra af svona grófu broti sýslumanns gegn réttindum gerðarþola enn á ný því stjórn Hagsmunasamtakanna hafði leyft sér að vona að þau væru liðin tíð.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa lengi og ítrekað skorað á stjórnvöld að endurskoða lög um nauðungarsölu frá árinu 1991, sem eru löngu orðin barn síns tíma, með hliðsjón af þeirri þróun sem síðan þá hefur orðið á löggjöf á sviði mannréttinda og neytendaverndar. Dæmi sem þessi sýna fram á nauðsyn þess og er krafa samtakanna um endurskoðun viðkomandi laga því hér með ítrekuð.

Við þetta má bæta að atburðir síðustu daga, bæði það mál sem hér um ræðir og stórfelld lögbrot við sölu Íslandsbanka, sýni fram á nauðsyn þess að gerð verði rannsóknarskýrsla um meðferð banka og sýslumanna á heimilunum eftir hrun.

Því það virðist lítið sem ekkert hafa breyst á Íslandi frá hruni,“ segir í pistli Hagsmunasamtaka heimilanna.