Hagnaður af rekstri SBK 13 milljónir
Samkvæmt rekstrarreikningi var hagnaður af reglulegri starfsemi SBK á síðasta ári, 12 millj. kr. en þetta er í fyrsta sinn sem hagnaður er af fyrirtækinu eftir að því var breytt í hlutafélag um áramótin 1996-97. Hagnaður af sölu fastafjármuna nam 1,4 millj.kr. og því nam hagnaður ársins samanlagt 13 millj.kr.Bókfært eigið fé félagsins var 49,5 millj. kr. í árslok, en þar af nemur hlutafé félagsins 40 millj.kr. Á árinu störfuðu að meðaltali 19 starfsmenn hjá félaginu. Hlutahafar voru 11 en eftirtaldir hluthafar eiga meira en 10% hlutafjár, þ.e. Bæjarsjóður Reykjanesbæjar sem á 60% hlutafjár og Kynnisferðir með 34,5%. Gríðarleg veltuaukning var á milli áranna 1998-99, en veltan fór úr rúmum 111 millj. kr. í tæpar 124 millj. kr. Að sama skapi minnkuðu gjöldin töluvert, eða um 5 millj. kr. og afskriftir fastafjármuna námu rúmum 15 millj. kr. árið 1999 en 13 millj. árið á undan. Veltufé frá rekstri var 29 millj. kr. en 10 millj. kr árið 1998. Af þessu má sjá að reksturinn hefur gengið með afbrigðum vel á síðasta ári enda hefur innra virði fyrirtækisins hækkað úr 0,87 í 1,24 á fáum mánuðum.