Hagkvæmni í lögbundnum rekstri hjá Reykjanesbæ
Mikill viðsnúningur hefur verið í launakostnaði Reykjanesbæjar frá árinu 2002 í samanburði við meðaltal sveitarfélaga. Reykjanesbær hefur náð fram umtalsverðri hagkvæmni í lögbundnum rekstri á sama tíma og þjónusta s.s. sérfræðiþjónusta og liðveisla er talin með því besta sem gerist á landinu.
Samkvæmt Árbók sveitarfélaga, var launakostnaður bæjarins árið 2002, sem hlutfall af tekjum, hærri en í meðaltali sveitarfélaga eða um 55,8% í Reykjanesbæ á móti 51,9% í meðaltali sveitarfélaga. Árið 2004 var þetta hlutfall orðið svipað og hjá öðrum sveitarfélögum. Síðan hefur það lækkað umfram meðaltalið.
Árið 2008 var þetta hlutfall 4% undir meðaltalinu eða 44,8% í Reykjanesbæ á móti 48,8% hjá sveitarfélögunum í heild. Árið 2009 var hlutfallið 5,6% undir meðaltalinu, 45,9% í Reykjanesbæ á móti 51,7% hjá sveitarfélögunum.
Athygli vekur að kostnaðarsamanburður sem miðar við tekjur sveitarfélags ætti að vera Reykjanesbæ óhagstæður, því tekjur Reykjanesbæjar á hvern íbúa eru með því lægsta sem gerist á landinu, sérstaklega eftir brotthvarf varnarliðsins árið 2006. Af 10 stærstu sveitarfélögum á landinu er Reykjanesbær samt með næst lægsta launakostnað sem hlutfall af tekjum.
„Við höfum lagt áherslu á hagkvæman rekstur sem byggir á góðu starfsfólki og skynsamlegu starfaskipulagi. Það skýrir þennan jákvæða mismun. Menn geta svo velt fyrir sér hvernig þetta lítur út þegar laun íbúa og þar með skatttekjurnar verða orðnar svipaðar og í landsmeðaltalinu,“ segir Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ.