Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

  • Hafnsögubátur sótti slasaðan sjómann í togara
    Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti sjómanninn frá Grindavík og á Landspítala. Mynd úr safni.
  • Hafnsögubátur sótti slasaðan sjómann í togara
Fimmtudagur 26. febrúar 2015 kl. 20:18

Hafnsögubátur sótti slasaðan sjómann í togara

– sjómaður brenndist mikið eftir vinnu við rafmótor

Hafnsögubátur Grindavíkurhafnar sótti í dag slasaðan sjómann um borð í togara skammt undan Hópsnesinu. Þung alda var á vettvangi og um 4 metra ölduhæð. Þrátt fyrir það gekk vel að koma manninum úr togaranum og í hafnsögubátinn.

Þegar hjálparbeiðni barst í dag var hafnsögubáturinn fyrstur af stað en björgunarskip frá björgunarsveitinni Þorbirni fylgdi í kjölfarið.

Sigurður Arnar Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík, sagði í samtali við Víkurfréttir að verkefnið hafi gengið vel og samvinna góð milli björgunaraðila.

„Við vorum fyrstir af stað á hafnsögubátnum eftir að hjálparbeiðni barst frá togaranum. Ég bað björgunarsveitina strax um að óska eftir aðstoð frá þyrlu Landhelgisgæslunnar því maðurinn sem við vorum að sækja var talsvert slasaður. Það gekk vel að koma honum um borð hjá okkur og að flytja hann í land“, segir Sigurður.

Tveir björgunarsveitarmenn komu yfir í hafnsögubátinn á vettvangi og hlúðu að hinum slasaða á meðan hann var fluttur í land. Maðurinn var fluttur að smábátabryggjunni þar sem hann fór með sjúkrabíl að norðurgarði Grindavíkurhafnar. Þar beið þyrla Landhelgisgæslunnar og flutti manninn á Landspítala í Fossvogi.

Maðurinn var að vinna við rafmótor í togaranum og hlaut þó nokkur brunasár.

Frá því hjálparbeiðni barst leið innan við hálftími þar til hinn slasaði var kominn í land og að þyrlunni sem beið við höfnina.

Sigurður segir að aðstæður við skipið hafi alls ekki verið góðar. Ölduhæðin upp á fjóra metra og erfitt að athafna sig. Þrátt fyrir aðstæður hafi aðgerðir tekist vel.

Public deli
Public deli