Hafnaraðstaða sem skapar mikil tækifæri til atvinnusköpunar
Ýmis verkefni hafa verið í undirbúningi í höfnum Reykjaneshafnar sem skapa bæði störf á framkvæmdartíma sem og til lengri tíma. Í Helguvíkurhöfn hefur staði undirbúningur að hafnaraðstöðu sem m.a. skapar mikil tækifæri til atvinnusköpunar í samspili við starfsemi Keflavíkurflugvallar. Jafnframt myndi sú hafnaraðstaða styðja við öryggishlutverk Íslands á Norðurslóðum og skapa möguleika til meiri uppbyggingar á því sviði.
Þetta kemur fram í fundargerð frá 240. fundi Stjórnar Reykjaneshafnar sem haldinn var fimmtudaginn 16. apríl.
„Mikil óvissa er uppi í þjóðfélaginu og í heiminum öllum um þessar mundir vegna alheimsfaraldursins COVID-19. Þessi óvissa hefur valdið rekstrarerfiðleikum hjá mörgum fyrirtækjum hér á landi sem brugðist hafa m.a. við með uppsögnum á starfsfólki. Atvinnuleysi á landinu hefur því stóraukist síðasta mánuðinn, sérstaklega hér á Suðurnesjum. Stefnir í að atvinnuleysi hér á Suðurnesjum nái sögulegum hæðum á næstu vikum og er nauðsynlegt fyrir samfélagið að sporna við þeirri þróun, m.a. með framkvæmdum sem skapa störf tímabundið og til lengri tíma.
Í Njarðvíkurhöfn hefur verið í undirbúningi lagfæringar á núverandi hafnaraðstöðu sem fæli i sér aukna möguleika fyrirtækja sem þar starfa til að bæta í starfsemi sína, bæði verkefnalega og í fjölgun starfa. Samhliða þeirri uppbyggingu skapast við þær hafnarframkvæmdir möguleikar fyrir nýja starfsemi á svæðinu.
Þessi verkefni eru atvinnuskapandi, bæði á framkvæmdatíma og til lengri tíma. Reykjaneshöfn er tilbúin til framkvæmda strax og leggja þar með sitt að mörkum til að spyrna við fyrirsjáanlegri þróun mála gegn því aðrir opinberir aðilar leggja framkvæmdunum það lið sem þarf. Reykjaneshöfn skorar því á ríkisstjórn Íslands að leggja þessum verkefnum lið svo hefja megi framkvæmdir sem allra fyrst til að sporna gegn atvinnuleysi á svæðin sem nú þegar er orðið yfir 15% og stefnir hærra.“
Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fjallar um málið í grein í Víkurfréttum. Sjá hér.