Hafna hefðbundnum vinnubrögðum í stjórnmálum
Nýr meirihluti hefur verið myndaður í Grindavík en í kvöld skrifuðu skrifuðu formenn og bæjarfulltrúar Framsóknarfélags Grindavíkur, Lista Grindvíkinga og Samfylkingarfélagsins í Grindavík undir samstarfssamning í bæjarstjórn.
Helstu atriði samstarfssamningsins eru þau að hafnað er hefðbundnum vinnubrögðum í stjórnmálum þar sem meirihluti keyrir í gegn mál í krafti fjöldans án aðkomu minnihluta. „Aðilar eru sammála því að þótt þessi samstarfssamningur sé undirritaður þá eigi mál að vera leyst í bæjarstjórn með aðkomu allra bæjarfulltrúa. Lögð verður áhersla á að halda áfram þeim vinnubrögðum er verið hafa í bæjarstjórn síðustu tvö árin þar sem áhersla hefur verið á að ræða mál af opnum hug og skoða allar mögulegar leiðir áður en bæjarfulltrúar gera upp hug sinn um hvaða leið skuli farin. Leitast verður við að hafa gott samstarf milli allra bæjarfulltrúa óháð flokki og tryggja að sjónarmið allra komi að borðinu áður en ákvörðun er tekin. Ávallt verður reynt að miðla málum og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Náist það ekki mun mál fara fyrir bæjarstjórn þar sem bæjarfulltrúar kjósa í samræmi við sína sannfæringu,“ segir í tilkynningu frá nýjum meirihluta.
Stefnt er að því að jafnvægi í rekstri náist sem fyrst og að rekstur Grindavíkurbæjar verði í samræmi við ný lög um fjármál sveitarfélaga. Í ljósi atvinnuástandsins eru fulltrúar B-, G- og S-lista einnig sammála því að Grindavíkurbær beri þá skyldu að ýta undir atvinnuuppbyggingu, meðal annars með því að fara í nauðsynlegar framkvæmdir í bæjarfélaginu. Framkvæmdir mega þó aldrei vera það miklar að rekstur sé ekki í jafnvægi og stefnt skal að því að handbært fé bæjarins fari ekki undir einn milljarð króna. Samkomulag er um að halda áfram uppbyggingu á tónlistarskóla og bókasafni við Grunnskóla Grindavíkur. Einnig skal haldið áfram uppbyggingu á íþróttasvæðinu í samræmi við fyrirliggjandi tillögu.
Fulltrúar B-, G- og S-lista eru sammála um að strax í haust verði þrjú mál sett í vinnslu í nefndum bæjarins. Í fyrsta lagi að bæjarráði verði falið að vinna jafnréttisáætlun fyrir Grindavíkurbæ. Í öðru lagi að fræðslunefnd skoði möguleika á því að setja upp útikennslusvæði í samvinnu við alla skóla í Grindavík, sjávarútvegsfyrirtækin og fyrirtæki er nýta orkuauðlindir innan sveitarfélagsins. Í þriðja lagi að skipulags- og umhverfisnefnd verði falið annars vegar koma með tillögur að því hvernig Grindavíkurbær getur á einfaldan og fljótlegan hátt aukið umhverfisvitund og endurvinnslu innan stofnana bæjarins og hins vegar að skoða kosti og galla þess að Grindavíkurbær starfi í samræmi við Staðardagskrá 21.
Fulltrúa Sjálfstæðisflokksins verður boðið sæti áheyrnarfulltrúa í bæjarráði
Fulltrúar B-, G- og S-lista telja mikilvægt að bæjarstjórn haldi áfram að styðja við atvinnuuppbyggingu í bæjarfélaginu sem og að styðja við þau fyrirtæki sem nú þegar eru staðsett í Grindavík, svo sem í sjávarútvegi og ferðamannaiðnaði. Stefnt skal að því að gera Grindavíkurbæ að eftirsóknarverðum stað bæði fyrir íbúa bæjarfélagsins sem og gesti, meðal annars með því að halda áfram uppbyggingu á göngustígum og fegrun bæjarins.
Aðilar hafa komist að samkomulagi um að forseti bæjarstjórnar verði Bryndís Gunnlaugsdóttir, oddviti Framsóknar, að Kristín María Birgisdóttir, oddviti Lista Grindvíkinga, verði formaður bæjarráðs og þær tvær ásamt Páli Vali Björnssyni, oddvita Samfylkingarinnar, muni skipa bæjarráð. Fulltrúa Sjálfstæðisflokksins verður boðið sæti áheyrnarfulltrúa í bæjarráði og einnig verður Sjálfstæðisflokknum boðið eitt sæti í öllum fimm aðalnefndum bæjarins.