Hafa hreinsað upp yfir 40 tonn af rusli
Umhverfissamtökin Blái herinn og frjálsu félagasamtökin SEEDS (See beyond borders) hafa í sumar unnið saman líkt og á síðasta ári að hinum ýmsu verkefnum á Reykjanesi. Síðastliðnar vikur hefur hópurinn unnið á Vallarheiði í samstarfi við Háskólavelli, Kadeco og IAV þjónustu og hreinsað og snyrt umhverfið.
Hópurinn gistir á Vallarheiði og hefur látið vel af dvölinni sinni hérna. Þau hafa farið í skoðunarferðir um Reykjanesskagann og skoðað helstu Perlur hans. Hópurinn er einnig viðloðinn verkefnið í Skessuhelli og hefur lagt listamönnunum lið við öflun smíðaefnis en allt efnið í það verkefni er tekið af Reykjanesskaganum, bæði úr fjörum og annars staðar, jafnvel efni sem átti að farga.
Hóparnir sem hafa verið hérna meira og minna síðan í byrjun júni hafa hreinsað yfir 40 tonn af rusli úr sveitarfélögunum Garði, Grindavík, Reykjanesbæ og um þessar mundir er hópurinn í Sandgerði.