Hafa áhyggjur af flugöryggi
Slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli hafa áhyggjur af flugöryggi á Keflavíkurflugvelli eftir mikla fækkun í þeirra röðum. Í ályktun þeirra segir:
„Nú þegar hefur verið fækkað um 32 menn í snjóruðningsdeild yfir vetrarmánuðina og hefur þessi fækkun nú þegar haft veruleg áhrif á verklag við hreinsun á snjó og við hálkuvarnir á flugbrautum vallarins. Þess vegna hefur ekki verið hægt að manna þann tækjabúnað sem fyrir hendi er nema að mjög takmörkuðu leyti. Þetta hefur og mun hafa mikil áhrif á umferð um flugvöllinn því þar sem áður var hægt að ryðja brautir upp í 65 metra breidd á 15 mínútum er hægt að ná 15-20 metra breidd á sama tíma. Þar af leiðandi má lítið út af bregða til að fullhlaðnar farþegaþotur lendi út af brautum, sérstaklega ef lent er í hliðarvindi.
Jafnframt hefur svo mörgum slökkviliðsmönnum verið sagt upp að aðeins 15 manns eru á vakt að jafnaði. Ef flugslys verður eiga þessir 15 menn fullt í fangi með að ráða við öll þau verkefni sem þarf að leysa á mjög skömmum tíma. Til að gefa hugmynd um stærðir, þá ber fullhlaðin Boeing 757 þota um 200 manns og eldsneytið er um 40 tonn.
Að auki gegnir flugvöllurinn því hlutverki að vera varaflugvöllur fyrir flug yfir Norður-Atlantshaf og því geta komið til lendingar flugvélar með allt að 400-500 farþega.
Slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli telja að við þetta ástand verði ekki unað. Því skorar fundurinn á stjórnvöld að leysa þann hnút sem kominn er á viðræður við bandarísk stjórnvöld og eyða óvissu um öryggi þeirra sem um flugvöllinn fara og einnig þeirra sem starfa við öryggismál á Keflavíkurflugvelli.“