Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 23. maí 2002 kl. 00:50

Hættur eftir 28 ára setu í hreppsnefnd Gerðahrepps

Sigurður Ingvarsson í Garði hefur setið sinn síðasta hreppsnefndarfund eftir að hafa setið 28 ár í hreppsnefnd Gerðahrepps. Hreppsnefndin kom saman til fundar á dögunum og þar óskaði Sigurður eftir því að eftirfarandi yrði fært til bókar:Ágætu hreppsnefndarmenn og gestir!

Nú er komið að ákveðnum tímamótum í lífi mínu eins og gerist hjá okkur öllum. Eftir 28 ára setu í hreppsnefnd Gerðahrepps er komið að seinasta fundinum. Ég vil á þessum tímamótum þakka öllum hreppsnefndarmönnum, sem ég hef unnið með fyrir samstarfið. Oft hefur verið tekist  á um málin en uppúr standa þær ánægjulegu stundir sem ég hef átt og það að geta lagt svolítið á vogaskálarnar til að gera þetta sveitarfélag að eins myndarlegu samfélagi og það er. Framtíð Garðsins er björt eins og þessi dagur er.
Ég vil einnig þakka öllu starfsfólki Gerðahrepps fyrir gott og ánægjulegt samstarf. Sem betur fer hefur okkur lánast að fá gott fólk til starfa hjá okkur í gegnum tíðina.
Á þessum tímamótum vil ég einnig færa Garðmönnum bestu þakkir fyrir öll samskiptin er varða hreppsnefndina. Þau samskipti hafa verið mér mikilvæg að fá að heyra og kynnast skoðunum íbúanna, það hefur oft auðveldað mér að taka ákvarðanir þótt auðvitað sé ekki alltaf hæægt að verða við óskum allra.
Ég óska öllum íbúum að komandi ár megi verða farsæl og Garðurinn blómstri og verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi.

Undir þetta ritar Sigurður Ingvarsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024