Fréttir

Hættu við erindi kapteins Pírata á íbúafundi
Fimmtudagur 19. nóvember 2015 kl. 11:33

Hættu við erindi kapteins Pírata á íbúafundi

- Átti að fjalla um beint lýðræði

Fulltrúar íbúa sem andvígir eru skipulagsbreytingum í Helguvík vegna byggingar kísilvers Thorsil höfðu boðið Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni og kapteini Pírata, að halda erindi um íbúalýðræði á íbúafundi í Stapa í kvöld. Á fundinum verður rætt um rafræna íbúakosningu um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík sem hefst í næstu viku. Hætt var við að hafa erindi hans á dagskrá fundarins því bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar voru ósáttir við að hann héldi þar erindi. Fjallað var um málið í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun. Þar var haft eftir Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, að hann og skipuleggjandi fundarins, Dagný Alda Steinsdóttir, hefðu sammælst um það fyrir nokkru að á fundinum væru aðeins tveir frummælendur, einn fyrir hönd bæjaryfirvalda og einn úr hópi íbúa sem mótfallnir eru breytingum á deiliskipulagi í Helguvík. Þegar nær dró fundinum hafi komið í ljós að erindi Helga Hrafns væri á dagskránni og það hafi bæjarfulltrúar ekki verið sáttir við. Ástæðan er sú að þá væri hætta á að umræðan færi um víðan völl og ekki yrði fjallað um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík með markvissum hætti.

Dagný Alda, skipuleggjandi fundarins, kveðst hafa metið stöðuna sem svo að meira máli skipti að fá bæjarfulltrúana á fundinn í kvöld og því hafi erindi Helga Hrafns verið tekið af dagskrá. „Hugmyndin var að Helgi myndi tala um beint lýðræði og mikilvægi þess að fólk taki þátt í kosningunni, sama hvort það er með eða á móti breytingum á deiliskipulagi í Helguvík. Erindið átti ekki að vera af pólitískum toga. Bæjarfulltrúar óskuðu eftir því á sínum tíma að fá að koma sínum sjónarmiðum fram á fundinum og mér fannst það mjög gott en þeir höfnuðu því svo ef erindi Helga Hrafns yrði á dagskránni. Það hefði verið gaman að fá hann á fundinn en svona er þetta,“ segir hún. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hópurinn ætlar að halda annan fund á næstunni og bjóða þá Helga Hrafni að halda erindi um beint lýðræði. „Við viljum höfða til unga fólksins og virkja það til að láta stórar ákvarðanir um framtíðina sig varða.“

Ragnheiður Þorgrímsdóttir, bóndi á Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit, mun sitja í pallborði á fundinum í kvöld og geta íbúar beint spurningum til hennar. Í næsta nágrenni við bæ Ragnheiðar er álver Norðuráls á Grundartanga og kísilverksmiðja Elkem. Þá stendur til að þar rísi sólarkísilverksmiðja á næstu árum. Hún hefur ásamt öðrum íbúum sveitarfélagsins staðið í baráttu gegn því að þriðja verksmiðjan rísi.