Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hættir í dag en sækir um starf bæjarstjóra sameinaðs sveitarfélags
Miðvikudagur 20. júní 2018 kl. 15:30

Hættir í dag en sækir um starf bæjarstjóra sameinaðs sveitarfélags

Magnús Stefánsson lætur í dag af starfi bæjarstjóra í Garði. Fyrsti fundur bæjarstjórnar Sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis verður síðdegis. Magnús ritar pistil á fésbókina í dag þar sem hann greinir frá starfslokum sínum. Hann greinir einnig frá því að hann muni sækja um starf bæjarstjóra sameinaðs sveitarfélags þegar það verður auglýst.
 
„Í dag læt ég af störfum, eftir að hafa verið bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs frá því í júlí 2012. Því fylgja blendnar tilfinningar, en um leið þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna með frábæru samstarfsfólki. Ánægjuleg og góð samskipti hafa verið við íbúana og ýmsa samstarfsaðila og fyrir það er þakkað. Okkur hefur gengið vel með starfsemi og rekstur sveitarfélagsins, íbúum hefur fjölgað á þessum tíma og margs konar uppbygging átt sér stað. Nú hafa Garður og Sandgerðisbær sameinast í eitt sveitarfélag, því fylgja ýmsar áskoranir og tækifæri til framtíðar. Ég óska nýju sveitarfélagi, starfsfólki þess og kjörnum fulltrúum alls góðs í þeirra störfum, til heilla fyrir íbúana og atvinnulífið“. 
 
Þá segir Magnús: „Bæjarstjórn hins nýja sameinaða sveitarfélags hefur auglýst stöðu bæjarstjóra. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí lýsti ég því að ég væri tilbúinn til starfa sem bæjarstjóri. Ég mun standa við það og leggja inn umsókn um stöðuna. Framhaldið ræðst af ákvörðunum bæjarstjórnar,“ segir Magnús Stefánsson, fráfarandi bæjarstjóri í Garði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024