Hætta þátttöku í forvarnar- og meðferðarteymi
Sveitarfélögin Garður og Vogar hafa ákveðið að að segja upp þátttöku sinni í Forvarnar- og meðferðarteymi HSS sem sett var á stofn fyrir ári síðan á sviði forvarna í fjölskyldumálum.
Sveitarfélögin segja samningnum upp í trausti þess að ríkið muni sjá sér hag í að reka þjónustuna áfram þar sem ekki sé um að ræða lögbundið verkefni sveitarfélaga.
Samkvæmt samkomulaginu lagði HSS til þessa verkefnis laun þriggja starfsmanna í hálfu starfi þ.e. sálfræðing, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa auk skrifstofuaðstöðu, fundaraðstöðu o.fl. Bæjarfélögin greiddu launakostnað vegna starfs sérfræðings í hálfu starfi sem sinnti eingöngu verkefnum vegna íbúa þeirra í samstarfi við félags- og fræðsluskrifstofur.
Markmiðið með verkefninu var að auka þjónustu við íbúa, auka samvinnu við HSS og skapa samfellu í bæjarfélögunum milli greiningarvinnu, aðgerðaáætlunar og úrræða í kjölfar hennar. Hlutverk verkefnisins, sem byggði á teymisvinnu, var að veita ráðgjöf, meðferð og eftirfylgd til barna á aldrinum 0-10 ára og fjölskyldna þeirra sem eiga við geð- og/eða sálfélagslegan vanda að stríða. Með samningnum átti að verða unnt að sinna mun betur þörfum leikskólabarna með hegðunarerfiðleika og fjölskyldna sem hafa orðið fyrir áfalli af einhverju tagi (skilnaður, slys, dauðsfall) og þar sem foreldrar hafa þörf fyrir uppeldisráðgjöf og fjölskylduráðgjöf.