Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hætta rekstri fiskimjölsverksmiðju í Helguvík í vor
Loðnuskip og fiskimjölsverksmiðjan í Helguvík.
Fimmtudagur 7. febrúar 2019 kl. 14:04

Hætta rekstri fiskimjölsverksmiðju í Helguvík í vor

Rekstri fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Helguvík verður hætt,  sérhæfður búnaður tekinn niður og fluttur á brott. Þetta hafa Víkurfréttir samkvæmt öruggum heimildum. Þá verða fasteignir verksmiðjunnar í Helguvík seldar. Sex manns missa vinnuna. Tilkynningar er að vænta frá Síldarvinnslunni um lokunina.
 
Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar hafa þegar fundað með starfsmönnum verksmiðjunnar í Helguvík. Gert er ráð fyrir því að fiskimjölsverksmiðjan verði nothæf til bræðslu á loðnu fram á vor en mikil óvissa er með loðnuvertíðina að þessu sinni. Meðalafkastageta verksmiðjunnar í Helguvík er 900 tonn á sólahring en hún er útbúin til framleiðslu á LT-mjöli, segir á vefsíðu Síldarvinnslunnar.
 
Loðnuvertíðir síðustu ára hafa skilað litlu í Helguvík og landanir þar verið fáar. Lokun fiskimjölsverksmiðjunnar setur vinnslu loðnuhrogna á Suðurnesjum í uppnám en hrognataka hefur verið stunduð í Helguvík og hratið frá hrognavinnslunni hefur farið til bræðslu hjá verksmiðju Síldarvinnslunnar.


Fréttatilkynning frá Síldarvinnslunni:
 

Síldarvinnslan hættir starfsemi fiskimjölsverksmiðjunnar í Helguvík

 
Síldarvinnslan hf. hefur ákveðið að hætta starfsemi fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík.  Verksmiðjan hefur verið starfrækt frá árinu 1997. Móttöku hráefnis verður hætt að lokinni loðnuvertíð, en reyndar er fullkomin óvissa um hvort af þeirri vertíð verði.
 
Áformin um lokun verksmiðjunnar voru kynnt starfsfólki í dag og voru þau einnig kynnt fulltrúum Reykjanesbæjar og öðrum hlutaðeigandi. Lokun verksmiðjunnar hefur í för með sér uppsögn sex starfsmanna en að auki hefur hún áhrif á ýmis verktaka- og þjónustufyrirtæki. Síldarvinnslan vonast til að önnur uppbygging á Suðurnesjum komi í veg fyrir að lokun verksmiðjunnar hafi þar alvarleg áhrif.
 
Ástæða lokunarinnar er einfaldlega sú að rekstur verksmiðjunnar stendur ekki undir sér. Helsta ástæðan er síminnkandi hráefni til fiskimjölsverksmiðja, hækkandi kostnaður og auknar kröfur sem kalla á öflugar einingar og aukna hagræðingu. Uppistaða þess hráefnis sem borist hefur til verksmiðjunnar í Helguvík er loðna og hefur nýting verksmiðjunnar farið síminnkandi undanfarin ár. Óvissa um reksturinn hefur farið vaxandi vegna minnkandi loðnukvóta og mikillar óvissu um loðnuveiðar.
 
Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig hráefni til fiskimjölsverksmiðja á Íslandi hefur þróast sl. 27 ár. Á henni sést hve mjög það hefur dregist saman á sl. 10 árum og vart er hægt að gera ráð fyrir að sú þróun breytist, ekki síst vegna mjög aukinnar áherslu á manneldisvinnslu.
 

Hér fyrir ofan má sjá mynd sem sýnir þróun móttöku fiskimjölsverksmiðja á Íslandi.
 
Eins og myndin ber með sér hefur orðið mikill samdráttur í hráefni til mjöl- og lýsisframleiðslu.  Gera má ráð fyrir frekari samdrætti í fiskimjölsiðnaðinum hér á landi.   Nú eru starfræktar 11 fiskimjölsverksmiðjur á Íslandi en til dæmis í Danmörku eru þær þrjár og taka þær á móti 800 þúsund tonnum á ári til vinnslu.
 
Hafist verður  handa við að ganga frá verksmiðjunni og svæðinu  í Helguvík í samráði við hlutaðeigandi yfirvöld. Unnið verður að því að koma búnaði og fasteignum í sölu og notkun.
 
Fasteignir verksmiðjunnar í Helguvík geta nýst með ýmsum hætti og ekkert því til fyrirstöðu að þær gagnist samfélaginu vel.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024