Hætt við sameiningu skóla í Garðinum
Meirihluti D-listans í Garði hefur ákveðið að endurskoða fyrri ákvörðun sína um samrekstur og/eða sameiningu Gerðaskóla og Tónlistarskólans í Garði. Tillaga þess efnis hefur verið dregin til baka og bókun skólanefndarinnar á því ekki lengur við varðandi tillögu um samrekstur skólanna. Þetta kom fram á bæjarstjórnarfundi í Garði síðdegis í gær.
Hins vegar vill D-listinn taka undir þá tillögu skólanefndar um að tímasetning á flutningi skólans í húsnæði Gerðaskóla verði á skólaárinu 2012-2013.
Í framhaldi af bókun skólanefndar Garðs leggur D-listinn fram eftirfarandi tillögu;
„Vegna þeirrar miklu umræðu sem fram hefur farið um skólana síðustu vikur leggur D-listinn til að framkvæmd verði óháð stjórnsýsluúttekt á starfsemi grunnskólans og Tónlistarskólans í Garði, með sérstaka áherslu á stjórnendaþáttinn, af til þess bærum aðilum. Bæjarstjóra falið að vinna að málinu“.
Fulltrúar N-listans benda á vegna umsagnar skólanefndar frá því 14. júní sl. að það er meirihluti skólanefndar sem um ræðir, ekki skólanefndin öll og gerir N-listinn þá kröfu að það komi fram skýrt í umsögninni.
Fjölmennt var á bæjarstjórnarfundinum í Garði í gær en meðal gesta í sal var þingkonan og fyrrum bæjarstjóri í Garði, Oddný G. Harðardóttir. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson