Fréttir

Hætt við flugtak og þarfnast frekari viðgerðar
Mánudagur 23. desember 2013 kl. 23:25

Hætt við flugtak og þarfnast frekari viðgerðar

Sukhoi Superjet 100 þotan sem hefur verið til viðgerðar eftir brotlendingu á Keflavíkurflugvelli í sumar komst ekki í loftið í kvöld. Vélin var komin á flugbrautarenda þar sem mótorar hennar voru keyrðir á fullu afli. Sjónarvottur sagði í samtali við Víkurfréttir að á tímabili hafi vélin bókstaflega horfið í reyk.

Eitthvað var ekki alveg eins og það átti að vera og eftir talsverðan tíma á brautarendanum kom í ljós að ekki var allt eins og það átti að vera. Drepið var á mótorum vélarinnar og hún dregin aftur inn í flugskýli 885 á Keflavíkurflugvelli.

Víkurfréttir höfðu spurnir af fjarskiptum vélarinnar við flugturninn á Keflavíkurflugvelli. Þau gengu að sögn heimildarmanns erfiðlega þar sem öll fjarskipti frá flugvélinni fóru fram á rússnesku á meðan flugturninn var með sín fjarskipti á ensku.

Heimildir Víkurfrétta herma að vélin hafi átt að fara af landi brott þann 28. desember nk. en óvíst er hvort það takist. Rússarnir munu taka sér frí fram á föstudag sem er næsti virki vinnudagur á Íslandi.

Myndirnar tók Hilmar Bragi þegar þotan var komin á brautarenda í kvöld. Myndin var tekin við erfiðar aðstæður og úr töluverðri fjarlægð.


 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024