HÆTT KOMINN Í HRÁEFNISTANKI
Aðfararnótt föstudagsins langa gekk ekki áfallalaust fyrir sig í Keflavík frekar en í Grindavík því kl. 03:43 var lögregla kölluð til Helguvíkur en þar hafði starfsmaður SR-mjöls hf. farið ofan í tank og misst meðvitund vegna súrefnisskorts í tanknum. Maðurinn, Þorsteinn Adamsson, var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þaðan til Reykjavíkur til frekari meðferðar en varð ekki meint af. „Við höfðu dælt lofti niður í tankinn og ég hélt að öllu væri óhætt. Þegar ég beygði mig niður inni í rýminu fann ég strax að loftið var kolsýringsmettað og reyndi þegar að koma mér upp úr tanknum en datt út áður en ég komst upp og féll u.þ.b. 2 metra niður í tankinn aftur. Vinnufélagarnir brugðust mjög hratt við, komu lofti að vitum mér og fluttu mig með skyndi upp úr tanknum og því var aldrei hætta á ferðum. Án skjótra viðbragða er aftur á móti mikil hætta á ferðum og óbætanlegur skaði skammt undan. Öfugt við reyk sem safnast fyrir efst í hverju rými þá hegðar kolsýringur sér eins og vatn og sest neðst. Því fann ég ekki fyrir neinu fyrr en ég beygði mig niður“ sagði Þorsteinn í viðtali við Víkfurfréttir.