Hæstiréttur þyngdi dóm vegna manndráps af gáleysi
Hæstiréttur Íslands hefur þyngt dóm yfir tvítugum Suðurnesjamanni vegna manndráps af gáleysi en hann var ákærður fyrir hafa í ágúst 2006 ekið bifreið langt yfir leyfðum hámarkshraða á Garðskagavegi með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti í árekstri við bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður og farþegi hennar létust.
Héraðsdómur dæmdi manninn í 6 mánaða fangelsi í maí á síðasta ári. Þar af voru fjórir mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára. Að auki var hann sviptur ökurétti í tvö ár.
Hæstiréttur þyngdi dóminn í 9 mánaða fangelsi og þar af sex mánuði skilorðsbundið. Þá var hann sviptur ökurétti til þriggja ára.
Í dómsorði segir að talið hafi verið yfir skynsamlegan vafa að hinn ákærði hafi ekið á ofsahraða þegar slysið varð og ekkert væri fram komið um að það hafi mátt rekja til ástands bifreiðarinnar fyrir slysið eða aðstæðna á veginum. Varðaði brot hans við 215. gr. almennra hegningarlaga, auk nánar tilgreindra ákvæða umferðarlaga. Við mat á refsingu hins ákærða var tekið mið að því að háttsemi hans var stórkostlega háskaleg og olli dauða tveggja manna. Jafnframt var tekið tillit til ungs aldurs hans, þess að hann hafði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað, að hann hlaut sjálfur töluverða áverka við slysið og þess að ekki var víst að annar þeirra sem lést hafi verið með öryggisbelti spennt, en það kunni að hafa átt þátt í því að bani hlaust af.
Dóm hæstaréttar og héraðsdóms er að finna hér: http://www.haestirettur.is/domar?nr=5697