Hærri skattekjur af nýjum störfum
– fljótar að skila sér
Ef laun íbúa breyttust t.d. til samræmis við laun íbúa Mosfellsbæjar, myndu árstekjur bæjarsjóðs vera um 970 milljónum kr. hærri. Þetta kom fram á íbúafundi sem Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar efndi til í Njarðvíkurskóla fyrir helgi og er einn af 6 fundum sem árlega eru haldnir í Reykjanesbæ á vorin. Næsti íbúafundur er í kvöld í Akurskóla í Innri Njarðvík, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.
Einnig kom fram á fundinum að Reykjanesbær er enn í hópi sveitarfélaga með lægstu skatttekjur á íbúa. Þær eru um 513 þúsund kr. á íbúa bæði með skatttekjum og greiðslum úr jöfnunarsjóði. Tekjur bæjarsjóðs gætu stigið mjög hratt ef fyrirhuguð atvinnuverkefni halda áfram að koma inn, því þau bjóða nánast öll verulega hækkun launa frá meðaltalinu. Takist starfsfólki flugstöðvar t.d. að fá hærri laun, hefur það einnig jákvæð áhrif á bæjarsjóð vegna fjölda starfsmanna sem býr í bænum. Á íbúafundinum kom fram að samkvæmt launakönnun sem bærinn lét framkvæma í fyrrahaust var um fjórðungur vinnandi íbúa með einungis um 250 þúsund kr. í mánaðarlaun. Meðallaun fjölbreyttra starfa t.d. í Helguvík miðast við 5-600 þúsund kr. mánaðarlaun.
Árni tók sem dæmi að væru skatttekjur hvers íbúa svipaðar og t.d. í Mosfellsbæ, sem nær að veita góða þjónustu fyrir lítinn kostnað, væri bæjarsjóður Reykjanesbæjar um 970 milljónum kr. hærri á síðasta ári.
„Við stefnum því ótrauð á að koma þessum störfum á legg. Þegar atvinnulífið er í blóma eru okkur allar leiðir færar“, segir bæjarstjóri í tilkynningunni.