Hælisleitendur í gæsluvarðhaldi
Tveir hælisleitendur eru í haldi lögreglunnar á Suðurnesjum eftir að þeir urðu uppvísir að innbroti í bæjarskrifstofur Reykjanesbæjar fyrir síðustu helgi. Þar mun hafa horfið óskilgreind peningaupphæð. Einskis annars var saknað í innbrotinu en unnið er að rannsókn málsins.
Eins og fyrr segir hafa mennirnir tveir sótt um hæli hér á landi en þeir hafa hins vegar verið hnepptir í vikulangt gæsluvarðhald fyrir að villa á sér heimildir við komuna til landsins. Þjóðerni þeira er óljóst sem stendur, en þeir voru með tékknesk vegabréf í fórum sínum. Umsókn þeirra um hæli er í vinnslu en á meðan hafa þeir dvalið á gistiheimili í Njarðvík. Félagsmálayfirvöld í Reykjanesbæ hafa samkvæmt samningi við íslensk yfirvöld tekið að sér að hýsa hælisleitendur á meðan mál þeirra eru til meðferðar í kerfinu en það getur tekið nokkurn tíma.
Reikna má með að þetta athæfi mannanna verði varla til að styða umsókn þeirra um hæli hér á landi, ekki síst í ljósi þess að nánast í öllum tilvikum hefur slíkum umsóknum verið synjað.
Hjördís Árnadóttir, félagsmálastóri RNB, segist ekki vita að svo komnu máli hvernig mál mannana verði meðhöndlað, sem stendur séu þeir í gæsluvarðhaldi og það verði á valdi Útlendingastofnunar skv. ísl. lögum hvernig framhaldið verður á umsókn þeirra um hæli.
Loftmynd: Séð yfir gistiheimilið Fit þar sem hælisleitendur búa