Fréttir

  • Hæfingarstöðin flytur í rúmgott húsnæði á Ásbrú
    Húsnæðið að Keilisbraut 755, þar sem Hæfingarstöðin verður til framtíðar. VF-myndir: Hilmar Bragi
  • Hæfingarstöðin flytur í rúmgott húsnæði á Ásbrú
    Frá kynningarfundi um framtíðaraðsetur Hæfingarstöðvarinnar í Reykjanesbæ.
Laugardagur 24. janúar 2015 kl. 15:28

Hæfingarstöðin flytur í rúmgott húsnæði á Ásbrú

– Keilisbraut 755 tekin í þjónustu Reykjanesbæjar

Hæfingarstöðin í Reykjanesbæ mun flytja í nýtt og rúmgott húsnæði á Ásbrú með vorinu. Húsnæðið er að Keilisbraut 755, beint á móti veitingastaðnum Langbest. Um er að ræða yfir 1000 fermetra húsnæði en Hæfingarstöðin mun nýta um 700 fermetra og hefur forleigurétt að öllu húsinu. Leigutími á húsinu er til 20 ára.

„Á árinu 2013 kom upp grunur um sýkingu í húsnæði Hæfingarstöðvarinnar. Umfangsmiklar aðgerðir í hreinsun skiluðu ekki árangri, ástand húsnæðisins var orðið slæmt í ágúst 2014. Fjölskyldu- og félagsmálaráð Reykjanesbæjar tók þá ákvörðun að láta notendur og starfsmenn njóta vafans og skipaður var starfshópur í lok ágúst sl. sem hafði það að markmiði að finna skammtímalausn og í framhaldi framtíðarlausn í húsnæðismálum,“ segir Ísak Ernir Kristinsson, formaður starfshóps sem var skipaður um húsnæðismál Hæfingarstöðvarinnar.

Starfshópinn skipa tveir fulltrúar fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar, Jasmina Crnac (A), Ísak Ernir Kristinsson (D) formaður starfshópsins, Guðlaugur Helgi Sigurjónsson framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs og Hrefna Höskuldsdóttir ráðgjafaþroskaþjálfi hjá fjölskyldu- og félagsþjónustunni. Ísak segir að margir aðrir hafi verið starfshópnum til aðstoðar.

Farið var í umfangsmikla skoðun á húsnæðiskostum og var skýrsla starfshópsins lögð fyrir bæjarráð í desember sl. sem samþykkti tillögu hópsins um framtíðarhúsnæðið.

Kynning á vinnu hópsins og á nýju framtíðarhúsnæði við Keilisbraut 755 fór fram í vikunni. Kynninguna sóttu notendur Hæfingarstöðvarinnar, aðstandendur þeirra og aðrir sem eru áhugasamir um starfsemina en um 60 manns sóttu fundinn.

Í samtali við Víkrufréttir sagði Ísak að þrátt fyrir mikinn niðurskurð ákváðu bæjaryfirvöld að gera vel í húsnæðismálum Hæfingarstöðvarinnar.
 
„Reykjanesbæjar hefur yfir að ráða glæsilegum húsakosti fyrir grunnskólana, leikskóla, íþróttamannvirki, tónlistarskóla, söfn o.s.fv. Núna er komið að því að aðstaða Hæfingarstöðvarinnar fari í þann flokk.

Nýja húsnæðið verður um 700 fermetrar eða um 200 fermetrum stærra en það húsnæði sem áður var nýtt undir starfsemina. Möguleikar til stækkunar eru einnig miklir og þá er gott útisvæði en notendur þjónustu Hæfingarstöðvarinnar lögðu m.a. mikla áherslu á útisvæði.

Nýja húsnæðið er í umsjón Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, og segir Ísak að starfshópurinn hafi átt gott samstarf við Kadeco. Á kynningarfundinum sem haldinn var í vikunni kom fram að nú er verið að leggja lokahönd á teikningar og grunnvinnu en framkvæmdir eru þegar hafnar. Gert er ráð fyrir að breytingar á húsnæðinu taki um þrjá mánuði og því gæti starfsemi Hæfingarstöðvarinnar hafist á nýjum stað í vor.



Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024