Hæfingarstöðin á Garðvang?
Garðvangur í Garði er einn þeirra kosta sem eru skoðaðir fyrir starfsemi Hæfingarstöðvarinnar, sem til þessa hefur verið með starfsemi við Hafnargötu í Keflavík. Flytja þarf starfsemi stöðvarinnar þar sem grunur er um að myglusveppur herji á húsnæði starfseminnar. Ráðist var í yfirgripsmiklar framkvæmdir á síðasta ári til að útrýma sveppnum en svo virðist sem sú aðgerð hafi ekki tekist.
Húsnæðismál Hæfingastöðvarinnar voru m.a. til umræðu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í síðustu viku. Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, sagði það grafalvarlegt mál þegar upp kemur mygla vegna rakaskemmda og fólk sé veikt dögum saman á sínum vinnustað.
Kristinn sagði á fundinum að fleiri en einn kostur væri til skoðunar í húsnæðismálum Hæfingarstöðvarinnar. Ragnarssel í Reykjanesbæ væri einn þeirra kosta en starfsmönnum Hæfingarstöðvarinnar lítist ekki á þann kost.
„Garðvangur er einn þessara kosta og hann er klár,“ sagði Kristinn á fundinum. Að flytja starfsemina í Garðinn hefur í för með sér kostnað við að flytja skjólstæðinga og starfsfólk í Garðinn. „Það má hugsa Garðvang sem tímabundna lausn,“ sagði Kristinn á fundinum.
Starfshópur um húsnæðismál stöðvarinnar er að störfum og hefur skipt með sér verkum.