Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Há tíðni reykinga og léleg mæting í krabbameinsleit
Miðvikudagur 14. júní 2017 kl. 16:35

Há tíðni reykinga og léleg mæting í krabbameinsleit

-Helstu ástæður hærri tíðni krabbameins í Reykjanesbæ

Dánartíðni vegna krabbameina á Suðurnesjunum er marktækt hærri en á öllu landinu, er fram kemur í lýðheilsuvísi frá Embætti landlæknis í vikunni. Þá eru einnig fleiri sjúkrahúslegur vegna langvinnrar lungnateppu en annars staðar á landinu.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í úttekt Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins vegna fyrirspurnar Víkurfrétta varðandi nýgengi krabbameina í Reykjanesbæ kemur fram þessi munur orsakist sennilega af hárri tíðni reykinga í Reykjanesbæ. Þá sé einnig líklegt að hækkuð tíðni leghálskrabbameins tengist lágri mætingu í leit, en mæting kvenna í krabbameinsskoðun í Reykjanesbæ hefur á tímabilinu 1997 til 2016 verið lakari en að meðaltali á landinu öllu. Hins vegar sé ekki hægt að útiloka að aðrar orsakir skýri einhvern hluta af hækkuðu nýgengi þessara tveggja gerða krabbameina.

 

Nýgengi lungnakrabbameins var hærra í Reykjanesbæ en á landinu öllu á tímabilinu 2007 til 2016 og nýgengi leghálskrabbameins var tvöfalt hærra í Reykjanesbæ. Nýgengi tíðustu meinanna, þ.e. krabbameins í blöðruhálskirtli hjá körlum og brjóstum hjá konum var hins vegar nokkru lægra í Reykjanesbæ en á landinu öllu en munurinn var ekki marktækur.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis hefur jafnt og þétt dregið úr reykingum á Suðurnesjunum eins og á landinu öllu en reykingar hafa þó lengst af verið algengari hér en í öðrum heilbrigðisumdæmum og var tíðnin að jafnaði 10 prósentustigum hærri í Reykjanesbæ þar til á síðustu árum. Um 85% lungnakrabbameina orsakast af reykingum en þar sem reykingatíðni hefur dregist mjög saman í Reykjanesbæ síðustu áratugi, jafnvel meira en á landsvísu, má búast við að talsvert dragi úr tíðni lungnakrabbameins og fleiri langvinnandi sjúkdóma næstu áratugi.

 

 

Hlutfall Íslendinga sem reykja daglega árið 2007.

 

Einnig lækkar regluleg mæting í leghálskrabbameinsleit bæði dánartíðni og nýgengi meinsins vegna þess að forstig sem finnast eru fjarlægð svo þau ná ekki að verða að krabbameini. Fyrir árin 1996, 2006 og 2016 var mæting kvenna í Reykjanesbæ í leit 59%, 55% og 58%, miðað við 66%, 61% og 68% á landinu öllu.

 

Á undanförnum árum hefur Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands fengið allnokkrar fyrirspurnir víðsvegar af landinu um óvenju mikinn fjölda krabbameinstilfella á tilteknum stöðum. Þetta hefur í hverju tilviki verið athugað og virðist helst vera um tilviljunarsveiflur að ræða. Vegna fámennisins er erfitt að greina marktækan mun milli staða á Íslandi. Ákveðnir drættir hafa þó komið í ljós þegar heildarmyndin er skoðuð og almennt gildir að nýgengi krabbameina er hærra í Reykjavík og nágrenni en úti á landsbyggðinni. Þetta gæti skýrst af ólíkum lífsháttum, betra aðgengi að greiningu og skimun og því að fólk flytji til höfuðborgarsvæðisins þegar veikindi herja á.