Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 3. október 2001 kl. 09:37

Há fjárhæð sem kemur á útgerðir í Grindavík

Samkvæmt tillögum endurskoðunarnefndar um auðlindagjald mun heildargreiðslan verða um 2 milljarðar króna. Ef skoðuð er sú fjárhæð sem sjávarútvegsfyrirtæki í hverju sveitarfélagi munu koma til með að greiða kemur eftirfarandi í ljós.
Fyrirtæki í Grímsey munu greiða 7,6 milljónir, en það nemur tæplega 83 þúsund krónum á hvern þar. Á Stöðvarfirði verður gjaldtakan tæpar 22 milljónir, eða tæpar 81 þúsund krónur á mann, í Grindavík verður fjárhæðin rúmar 176 milljónir, sem jafngildir 76 þúsund krónum á mann. Samkvæmt þessari samantekt munu mestu fjármunirnir til greiðslu auðlindagjalds fara frá Akureyri, eða rúmar 300 milljónir kr.
Samkvæmt tillögum endurskoðunarnefndarinnar mun hluta auðlindagjaldsins verða veitt til baka til sveitarfélaganna í formi styrkja til að byggja upp atvinnulíf í öðrum atvinnugreinum en sjávarútvegi. Þar yrði um að ræða fjárhæð á milli 350 og 500 milljónir króna sem deilt yrði niður á byggðirnar, en augljóst er að þeir fjármunir sem afhentir verða sveitarfélögunum með þeim hætti eru miklum mun lægri en verða fluttir þaðan í formi auðlindagjalds.
„Þetta er fjandi há fjárhæð sem kemur á útgerðir hér í Grindavík“, sagði Einar Njálsson bæjarstjóri í Grindavík og bætir við að það sé ekki nokkur vafi á því að gjaldið hafi áhrif á rekstrarafkomu útgerðarfyrirtækja í Grindavík og möguleika þeirra á að starfa í sinni grein. „Ef hallar undan útgerðinni í Grindavík, þá hallar undan samfélaginu. Heildargreiðsla útvegsins í Grindavík er 176 milljónir króna sem er helmingur af þeim 350 milljónum sem talað er um að veita aftur til baka til atvinnumála. Þegar þessar tölur eru bornar saman sjá allir þvílíkur skattur þetta er fyrir Grindavík“, segir Einar.  
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024