Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gunnuhver opnaður fyrir sumarið
Miðvikudagur 7. apríl 2010 kl. 11:41

Gunnuhver opnaður fyrir sumarið


Framkvæmdir eru hafnar við Gunnuhver til að bæta aðgengi ferðafólks að hverasvæðinu á ný. Almannavarnir lokuðu svæðinu af öryggisástæðum fyrir tveimum árum eftir að aukin virkni hljóp í hverinn með þeim afleiðingum að hann breiddi úr sér, eyðilagði útsýnispall og tók í sundur veginn.

Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa lagt þunga áherslu á að svæðið yrði opnað að nýju enda dregur Gunnuhver að sér fjölda ferðamanna. HS Orka, Grindavík, Reykjanesbær og Ferðamálastofa koma að endurbótunum ásamt Ferðamálasamtökum Suðurnesja.
Búið er að leggja göngustíga að svæðinu og lagfæra bílastæði. Á næstunni verður hafist handa við að reisa nýjan útsýnispall. Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja, segir stefnt að því að opna Gunnuhver aftur formlega í maí.

Að sögn Kristjáns yrði Gunnuhver helsta djásnið í jarðminjagarði sem áhugi er fyrir að stofna yst á Reykjanesi og yrði hluti af neti viðurkenndra jarðminjagarða í Evrópu undir heitinu European Geoparks.  Slíkir garðar hafa mikið aðdráttarafl á ferðamenn en jarðfræðitengd ferðaþjónusta (Geotourism) ryður sér mjög til rúms.

„Þetta þarf að undirbúa vel. Fyrst þarf að fá samþykki hagsmunaðila eins og t.d. sveitarfélaganna og landeigenda. Rætt hefur verið við þessa aðila og allir tekið vel í þessar hugmyndir. En það þarf að útfæra þetta betur með samþykktum og viljayfirlýsingum, tryggja fjármagn og almennan rekstrargrundvöll til framtíðar þannig að menn hrista þetta ekki fram úr erminni,“ segir Kristján aðspurður um hvort umsóknarferlið sé hafið. Hann segir þó stefnt að því að sækja um sem allra fyrst.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ljósmynd/elg - Frá hinu litríka svæði við Gunnuhver.