Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gunnuhver aðgengilegur á ný
Fimmtudagur 24. júní 2010 kl. 10:49

Gunnuhver aðgengilegur á ný


Háhitasvæðið við Gunnuhver á Reykjanesi var í gær opnað formlega að nýju eftir þiggja ára lokun. Lokunin stafaði af miklum umbreytingum á svæðinu við gufu- og leirgos sem þar varð og í framhaldi af því lokaði lögreglan svæðinu.
Svæðið hefur gjörbreyst við Gunnuhver frá því sem var fyrir þrem árum og hefur myndast hér stærsti leirhver á Íslandi með gígop sem er 20 metrar í þvermál. Mikið gufuútstreymi er nú á háhitasvæðinu með fjölda gufu- og leirhvera sem hafa myndast vegna suðu í jarðhitageyminum. Gufan leitar til yfirborðsins í gufuaugum og hvínandi gufuhverum en þéttist líka í yfirborðsvatni og myndar með því leirhveri.

Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa látið smíða útsýnispall við Gunnuhver þar sem hægt er að sjá og heyra orkuna brjótast úr iðrum jarðar. Einnig hefur verið lögð göngubrú uppá Kísilhól þar sem gott útsýni er að stærsta leirhver landsins. Þaðan er einnig gott útsýni yfir Gráalónið sem hefur myndast á sama hátt og Bláa Lónið. Á háhitasvæðinu við Gunnuhver stundaði danskur maður, Höyer að nafni, og lettnesk kona hans  blómarækt og pottagerð á fjórða áratug síðustu aldar en leifar eru af íbúðarhúsi þeirra við Kísilhól.
Nafnið á hvernum kemur úr þjóðsögum Jóns Árnasonar sem segir frá því hvernig illvíg afturganga á Suðurnesjum að nafni Gunna var lokkuð af séra Eiríki í Vogsósum ofaní hverinn og situr þar enn.


Framkvæmdirnar við Gunnuhver eru fjármagnaðar með styrk frá Ferðamálastofu, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ. Göngustígur um svæðið milli útsýnispallana var lagður og kostaður af HS orku hf. Verkfræðistofa Suðurnesja sá um eftirlit með verkinu en Pétur Jónsson landslagsarkitekt sá um hönnun svæðisins og Grindin hf . í Grindavík sá um smíði pallanna.

VFmyndir/elg





Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024