Gunnar Örlygsson gengur í þingflokk Sjálfstæðisflokksins
Gunnar Örlygsson, alþingismaður, hefur sagt sig úr þingflokki Frjálslynda flokksins og mun ganga til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins, verði aðild hans þar samþykkt. Gunnar mun tilkynna þetta formlega á Alþingi nú á eftir. Þessi ákvörðun Gunnars á sér aðdraganda og er tekin að vel yfirlögðu ráði. Til grundvallar liggja málefnalegar ástæður. Í samtali við Víkurfréttir nú áðan sagðist Gunnar ekki tjá sig með formlegum hætti um málið fyrr en hann hafi gert þingheimi grein fyrir málinu.
Gunnar Örlygsson alþingismaður hefur óskað eftir inngöngu í þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Viðskiptablaðsins, www.vb.is, verður beiðnin tekin fyrir á þingflokksfundi sjálfstæðismanna í kvöld og má fastlega gera ráð fyrir að hún verði samþykkt.
Ef af verður fækkar þingmönnum Frjálslynda flokksins í þrjá, en liðsmönnum Sjálfstæðisflokksins á þingi fjölgar í 23. Liðskiptin eru ekki síst þýðingarmikil að því leyti, að við þau stækkar meirihluti ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Stjórnarliðar verða 35 á móti 28 stjórnarandstæðingum, í staðinn fyrir 34 á móti 29.