Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 20. júní 2000 kl. 15:32

Gulldrengurinn Eiður í Keflavík

Gulldrengurinn Eiður Smári Guðjohsen sem hefur skrifað undir samning við stórliðið Chelsea kom til Keflavíkur frá London klukkan þrjú. Það er óhætt að segja að eplið falli ekki langt frá eikinni því faðir hans Arnór Guðjohnsen, sem var með honum, var einn af fyrstu atvinnumönnum Íslendinga.Eiður er hins vegar orðinn dýrasti leikmaður Íslendinga en Chelsea keypti hann fyrir 4 milljónir punda eða tæpan hálfan milljarð íslenskra króna.Eiður segist mjög ánægður með samninginn við Chelsea. „Þetta er náttúrlega allt annað en hjá Bolton og ljóst að keppni um sæti í liðinu verður gríðarlega hörð“, sagði Eiður í samtali við vf.is. Það er stórkarlar á borð við Tore Andre Flo, George Weah, Hasselbank, Zola og fleiri sem munu keppa við Íslendinginn unga um sæti í framlínu Lundúnaliðsins. „Ég fer út 17. júlí til æfinga og fyrsti leikurinn verður á Wembley við Englandsmeistara Man. Utd. Það væri ekki amalegt að byrja ferilinn í þeim leik“, sagði Eiður sem er ekki ókunnur á Wembley. Hann lék þar í undanúrslitum bikarkeppninnar í vor gegn Aston Villa. Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs, segir að fyrir tveimur árum hafi ekki verið útlit fyrir að sonur hans yrði hjá stórliði á borð við Chelsea innan skamms. „Hann hefur unnið hörðum höndum og á þetta sjálfur. Eiður náði öllu því sem hann vildi ná hjá Bolton og því er þetta skemmtilegt skref fram á við fyrir hann. Það er náttúrlega gríðarlega hörð barátta um sæti í liðinu og það á eftir að koma í ljós hvernig honum gengur. Ég er auðvitað mjög stoltur með þetta allt. Samningurinn er mjög góður og allt aðrar tölur í gangi en þegar ég gerðist atvinnumaður fyrir tveimur áratugum“, sagði Eiður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024