Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gula pressan situr um Suðurnesjamann
Mánudagur 9. ágúst 2004 kl. 11:46

Gula pressan situr um Suðurnesjamann

Allt ætlar um koll að keyra í öllum slúðurblöðum í Bandaríkjunum vegna fréttar sem Víkurfréttir birtu á vefnum nú í vikunni. Þar greindum við frá því að Nicolas Cage hafi millilent á Keflavíkurflugvelli á einkaþotu sinni. Okkur Íslendingum finnst stórfréttin felast í því að Nicolas Cage hafi komið til Íslands en sú er ekki raunin í gulu pressunni í Bandaríkjunum.

Giftur 19 ára gamalli stúlku
Þeim finnst sú staðreynd að hann hafi verið að ferðast með barnsmóður sinni, Kristina Fulton, vera mjög óvenjuleg þar sem að Cage giftist nú nýverið hinni 19 ára gömlu Alice Kim. Cage er víst þekktur fyrir að halda sambandi við Fulton en hefur þó ekki ferðast með henni til þessa.

Stærsta slúðurblaðið hafði samband
Kristján Ingi Þórðarson, starfsmaður IGS flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli, hefur nú lent á milli leikarans og slúðurblaðanna en síminn hjá honum hefur ekki hætt að hringja. „Blaðið Star Magazine hafði samband við mig í gær og vildi vita allt um málið því það þótti víst grunsamlegt að barnsmóðir hans hafi verið með honum þar sem hann er nýgiftur,“ sagði Kristján í samtali við Víkurfréttir.

Viðtalstæknin yfirþyrmandi
„Ég var vakin rétt fyrir hádegi í gær með símtali frá Star Magazine en blaðakona á þeim miðli vildi fá viðtal við mig, ég hélt að hún væri að grínast í mér og þess vegna spurði ég hana hvort um gabb væri að ræða. En raunin var ekki sú, hún vildi fá að vita allt um komu leikarans til Íslands.“ Kristján Ingi furðaði sig á því hvernig henni hafi borist fregnir af þessu en þá svaraði fréttakonan:„Allt er að finna á netinu.“ „Viðtalstæknin hjá konunni var með ólíkindum,“ segir Kristján. Hann bætti því við að yfirheyrslan hjá konunni gefi til kynna að hún taki fjölmörg svona viðtöl á dag.


Ekki óskastaðan
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta bauð eitt stærsta slúðurblaðið í Bandaríkjunum Kristjáni Inga dágóða peningaupphæð fyrir mynd af honum með leikaranum. „Þetta er ekki óskastaðan mín þar sem að ég hef aldrei lent í þessu áður, einn daginn hitti ég Nicolas Cage og hinn daginn er ég í öllum blöðum á Íslandi. Áður en ég veit af þá er stærsta slúðurblað Bandaríkjanna farið að hafa samband,“ sagði Kristján Ingi sem vill helst ekkert ræða við þessi stóru blöð í Bandaríkjunum þar sem þau eru þekkt fyrir að „krydda“ sögur sínar.

Þegar Víkurfréttir höfðu samband við Kristján í morgun hafði hann ekki ákveðið hvort hann hygðist selja myndina til Bandaríkjanna. Ekki er vitað af hverju svo mikill áhugi er á myndinni af honum og Cage en telja Víkurfréttir að það sé vegna staðfestingar á því að hann hafi hitt hann.

 

 

Myndirnar: Nicolas Cage og kona hans Alice Kim / Kristján Ingi ásamt Nicolas Cage

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024