Guðrún Sævarsdóttir ráðin til Keilis
Dr. Guðrún A. Sævarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri orku- og tækniklasa Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs. Í tilkynningu frá Keili segir að Guðrún hafi frá árinu 2006 verið dósent í varma- og straumfræði við véla- og iðnaðarverkfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands. Hún hefur jafnframt frá 2007 verið ráðgjafi SINTEF, stærstu sjálfstæðu rannsóknarstofnunar Norðurlanda og frá 2002 verið ráðgjafi Íslenska járnblendifélagsins auk þess að vinna að fjölmörgum rannsóknarverkefnum. Guðrún hefur jafnframt sinnt kennslu við verkfræðideild, einkum á sviði orkufrekra framleiðsluferla, varmafræði og varmaflutningsfræði.
Guðrún Sævarsdóttir er formaður stýrihóps VOR, Vettvangs orku- og stóriðjurannsókna, við verkfræðistofnun Háskóla Íslands, hún er fulltrúi verkfræðideildar háskólans í stýrihóp fyrir samráð deildarinnar og raunvísindadeildar um orkuþema, situr í samráðsnefnd HÍ og ÍSOR og hefur frá árinu 2002 verið ritari Eðlisfræðingafélags Íslands.
Guðrún Sævarsdóttir með BS gráðu í eðlisfræði frá Háskóla Íslands frá 1994, MS í eðlisfræði frá sama skóla frá árinu 1996 og doktorsgráðu í efnisverkfræði frá Tækniháskólanum í Þrándheimi í Noregi(NTNU) frá árinu 2002. Hún hefur á undanförnum árum hlotið fjöldamargar viðurkenningar og styrki fyrir rannsóknir sínar jafnframt því að birta um þær greinar í innlendum og erlendum vísindaritum.
Undir orku- og tækniklasa Keilis falla kennsla og rannsóknir á sviði orkuvísinda og tæknifræða með sérstakri áherslu á nýtingu innlendrar orku og tækniþekkingar til uppbyggingar á íslensku atvinnulífi og samfélagi.
Guðrún er gift Þórði Magnússyni og eiga þau þrjú börn.