Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Guðrún Ólafsdóttir heiðursfélagi VSFK
Laugardagur 28. desember 2002 kl. 21:11

Guðrún Ólafsdóttir heiðursfélagi VSFK

Í dag var 70 ára afmæli Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis fagnað og af því tilefni var vegleg afmælishátíð félagsins haldin í Stapa. Dagskrá afmælishátíðarinnar var fjölbreytt og stóð á þriðju klukkustund með ávörpum, ræðum og skemmtiatriðum. Undir dagskránni voru svo sýndar myndir úr starfsemi VSFK og af starfssvæði félagsins sem Viðar Oddgeirsson hefur tekið saman.Kristján Gunnarsson formaður félagsins flutti ávarp, auk þess sem gestir ávörpuðu samkomuna og færðu félaginu gjafir. Þannig varð listaverkasafn félagsins mun stærra eftir daginn í dag. Sigrún Eva Ármannsdóttir söng nokkur hugljúf lög, Jóhannes Kristjánsson flutti gamanmál og með honum í för voru margar þjóðkunnar persónur, auk þess sem Kristján verkalýðsformaður fékk það óþvegið í gríni og glensi. Rúnar Júlíusson sló svo botninn í dagskránna með rokki og róli eins og honum einum er lagið. Boðið var upp á glæsilegar kaffiveitingar og undirleik Guðmundar Hermannssonar.

Í tilefni 70 ára afmælis VSFK var Guðrún E. Ólafsdóttir gerð að heiðursfélaga í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis. Fékk hún skrautritað skjal þess efnis og myndarlega blómaskreytingu. Þá lék Guðmundur Hermannsson Maístjörnuna fyrir Guðrúnu sem sérstakt óskalag. Gestir stóðu allir upp úr sætum sínum og klöppuðu Guðrúnu lof í lófa. Meðfylgjandi mynd er af Guðrúnu þegar henni var tilkynnt um ákvörðun stjórnar VSFK í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024