Guðrún Lilja valin Jólastjarnan
Guðrún Lilja Dagbjartsdóttir, 9 ára úr Grindavík var valin Jólastjarnan 2016. Hún kemur því fram á stórtónleikunum Jólagestir Björgvins sem fara fram í Laugardalshöll 10. desember. Úrslitaþáttur keppninnar var sýndur á Stöð 2 í gærkvöld og mátti þar sjá þegar Björgvin Halldórsson mætti ásamt fylgdarliði sínu í skólann til Guðrúnar Lilju og óskaði henni til hamingju með sigurinn.
Þrjár söngkonur af Suðurnesjum komust í úrslit Jólastjörnunnar í ár. Hinar voru þær Perla Sóley Arinbjörnsdóttir og Sesselja Ósk Stefánsdóttir.
Víkurfréttir ræddu við jólastjörnurnar í blaði og sjónvarpsþætti vikunnar. Þetta sagði Guðrún:
Syngur á hverjum degi
„Þetta var mjög gaman og gekk vel,“ segir Guðrún Lilja, sem söng lögin Make you feel my love og Everybody loves a lover í undanúrslitum keppninnar. Hún hefur lært á píanó og sótt nokkur söngnámskeið. Þrátt fyrir ungan aldur er Guðrún Lilja orðin nokkuð reynd söngkona og hefur komið fram opinberlega með pabba sínum, Dagbjarti Willardssyni. Skemmtilegast finnst þeim feðginum að syngja saman lagið Hallelujah eftir Leonard Cohen. Guðrún hefur alltaf haft gaman af því að syngja og syngur heima á hverjum degi.