Guðrún Gísladóttir KE á sjó innan fárra mánaða
Haukur Guðmundsson athafnamaður í Njarðvík hefur fest kaup á veiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttur KE þar sem það liggur á hafsbotni við strendur Noregs. Hann ætlar að ná skipinu upp og gera það sjófært á ný. Haukur sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að þetta yrði dýrt verkefni en hann gerir ráð fyrir að skipið verði komið til veiða innan nokkurra mánaða. Haukur verður að fara í einu og öllu eftir reglum norska mengunarvarnarráðuneytisins við verkefnið en hann hefur fengið hóp norskra kafara til liðs við sig.