Guðrún Arthúrsdóttir hættir í bæjarstjórn
Guðrún Arthúrsdóttir, bæjarfulltrúi í Sandgerði, hefur óskað eftir lausn frá skyldum bæjarfulltrúa frá og með fyrsta reglubundna fundi bæjarstjórnar 2014 vegna breyttra persónulegra aðstæðna.
Bæjarstjórn samþykkir með fjórum greiddum atkvæðum S-lista, þrír fulltrúar sitja hjá, að veita Guðrúnu Arthúrsdóttur lausn frá skyldum sínum sem bæjarfulltrúi í Sandgerðisbæ frá og með 1. janúar 2014 og mun Kristinn Halldórsson taka sæti hennar sem aðalmaður í bæjarstjórn enda hefur Jón Norðfjörð sem næstur er á lista lýst því yfir að hann biðjist undan setu í bæjarstjórn.
Magnús S. Magnússon óskaði eftir að beiðni Jóns Norðfjörð til forseta bæjarstjórnar um að hann biðjist undan setu í bæjarstjórn komi fram skriflega og verði tekin til formlegrar afgreiðslu.
Bæjarstjórn Sandgerðis þakkar Guðrúnu störf hennar í þágu Sandgerðisbæjar og gott samstarf um árabil um leið og henni er óskað velfarnaðar.
Kristinn Halldórsson tekur jafnframt sæti Guðrúnar sem varamaður í bæjarráði Sandgerðis.