Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Guðmundur Pétursson sækist eftir 5.-7. sæti
Miðvikudagur 29. janúar 2014 kl. 15:32

Guðmundur Pétursson sækist eftir 5.-7. sæti

- á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í komandi prófkjöri.

Guðmundur Pétursson sækist eftir 5.-7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í komandi prófkjöri. Guðmundur er 63 ára gamall húsasmíðameistari og starfar sem framkvæmdastjóri hjá IAV Þjónustu ehf og Skólum ehf, en Skólar reka t.d 5 leikskóla á Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég er ekkill, en kona mín Bára Hansdóttir lést úr krabbameini í september 2011. Við eigum tvö börn, Pétur Rúðrik 43 ára, sem býr í Grindavík og Sólveig Gígju 21. árs sem býr í Reykjanesbæ.

Ég var formaður Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar 1994-1998 og formaður framkvæmda og tækniráðs Reykjanesbæjar 1998-2000. Þá sat ég sem ráðgjafi utanríkisráðuneytisins í vinnuhóp um brotthvarf varnarliðsins, og var í vinnuhóp sem iðnaðarráðuneytið skipaði 2010 um atvinnumál á Suðurnesjum. Ég sit í stjórn Atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar fyrir hönd Samtaka Atvinnurekenda á Reykjanesi (SAR) en þar hef ég verið formaður síðan 2011.

Ég hef alla tíð haft áhuga á atvinnumálum og hef undanfarin 3 ár verið að vinna m.a í stýrihóp vegna Norðurslóðaverkefna og sit í stjórn norðurslóða viðskiptaráðs sem stofnað var í maí 2013.

Ég hef tekið virkan þátt í flokksstarfinu, var formaður Sjálfstæðisfélagsins Keflvíkings, hef setið í stjórn fulltrúaráðsins í fjölmörg ár og núna síðast sem formaður stjórnar fulltrúaráðsins.

Ég hef mikinn áhuga á að koma með reynslu mína af atvinnumálum inn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar ef ég fæ umboð til þess. Það eru spennandi tímar framundan hér á Reykjanesi með alþjóðaflugvöll og Helguvíkina sem grunnstoðir fyrir ný verkefni. Ég vil leggja krafta mína fram í þeirri þróun og óska því eftir stuðningi ykkar í 5.-7. Sætið,“ segir Guðmundur Pétursson í tilkynningu til Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024