Guðmundur Brynjólfsson hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin
Vogamaðurinn Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin í morgun, en verðlaunin voru veitt í Árbæjarskóla. Bókin heitir Þvílík vika. Guðmundur segir að bókin sé unglingasaga frekar en barnasaga. Hún fjalli um þrjá stráka sem séu að ljúka við tíunda bekk og byrja að fóta sig í samfélaginu.
Guðmundur Brynjólfsson er bókmennta- og leikhúsfræðingur að mennt og hefur auk þess lokið djáknanámi. Á síðasta ári sigraði hann í samkeppni Forlagsins og barnabókahátíðarinnar Draugar úti í mýri um draugasmásögur fyrir börn með sögu sinni At? Árið 2006 hreppti leikrit hans Net 2. sæti í handritasamkeppni Borgarleikhússins og leikrit sem hann skrifaði í félagi við Berg Ingólfsson, 21 manns saknað, var tilnefnt til Grímuverðlaunanna fyrr á þessu ári.
Um þessar mundir er annað leikrti eftir þá félaga, Horn á höfði, á fjölum Grindvíska atvinnuleikhússins.