Guðlaug Björt dúx á vorönn í FS
Sjötíu og sex nemendur útskrifuðust á vorönn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Átján ára Njarðvíkurmær, Guðlaug Björt Júlíusdóttir, var dúx skólans en hún útskrifaðist frá náttúrufræðibraut á þremur árum með 9,5 í aðaleinkunn. Af þessum 76 voru 50 stúdentar, 6 sjúkraliðar, 9 brautskráðust af starfsbraut, 9 úr verknámi og 14 luku námi af starfsnámsbrautum. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 39 og karlar 37. Alls komu 56 úr Reykjanesbæ, sex úr Grindavík og Sandgerði, fjórir úr Garði, þrír úr Vogum og síðan kom einn úr Hafnarfirði.
Dagskráin útskriftarinnar var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Ásta María Jónasdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Guðbjörg Jónatansdóttir kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Aron Freyr Kristjánsson nýstúdent lék á rafgítar ásamt Högna Þorsteinssyni, kennara við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur.
Ásta María Jónasdóttir og Theodór Már Guðmundsson fengu viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda, Alexander Róbertsson fyrir myndlist og Guðni Már Gilbert fyrir forritun. Ingólfur Þór Ævarsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í vélstjórnargreinum og hann fékk einnig gjöf frá Isavia fyrir árangur sinn. Ellert Björn Ómarsson fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda og fyrir góðan árangur í myndlist. Lárus Guðmundsson fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn viðskipta- og hagfræði og fyrir góðan árangur í bókfærslu. Bjarki Þór Wium Sveinsson fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í bókfærslu og fyrir frábæran árangur í sálar-og uppeldisfræði og hann fékk einnig verðlaun frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum. Elva Dögg Sigurðardóttir fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda og hún fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í félags-og sálarfræði, spænsku og bókfærslu. Bertmarí Ýr Bergmannsdóttir fékk síðan viðurkenningar fyrir góðan árangur í spænsku, ensku, félagsfræði og myndlist.
Guðlaug Björt Júlíusdóttir fékk viðurkenningu frá skólanum fyrir árangur sinn í stærðfræði en hún fékk einnig gjöf frá Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir árangur í stærðfræði og sömuleiðis gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði. Guðlaug Björt fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í efnafræði, spænsku og íslensku og þá fékk hún verðlaun frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í íslensku. Hún fékk gjöf frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir árangur í raungreinum og verðlaun frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum. Guðlaug Björt hlaut einnig raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík en þau hlýtur sá nemandi sem nær bestum árangri í raungreinum á stúdentsprófi. Guðlaug fékk bók að gjöf en kjósi verðlaunahafi að hefja nám við Háskólann í Reykjavík fær hann auk þess nýnemastyrk og niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Guðlaug Björt Júlíusdóttir styrkinn. Guðlaug Björt fékk einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.
Við útskriftina veittu foreldrafélag skólans og Reykjanesbær verðlaun fyrir jákvæða framkomu á skemmtunum félagsins í vetur. Það voru þau Lovísa Ýr Andradóttir og Olaf Forberg sem voru dregin úr hópi þeirra nemenda sem uppfylltu skilyrðin fyrir þátttöku en þau fengu bæði spjaldtölvu að gjöf.
Guðbjörg Ingimundardóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita nemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þau Aníta Lóa Hauksdóttir, Birta María Ómarsdóttir, Magnþór Breki Ragnarsson og Aron Már Guðmundsson fengu öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku og góðan árangur í lífsleikni. Þá fékk nemendafélag skólans 100.000 kr. sem viðurkenningu fyrir öflugt og fjölbreytt félagslíf en það var Ásta María Jónasdóttir nýstúdent og fráfarandi formaður nemendafélagins sem tók við styrknum.
Guðlaug með fjölskyldu sinni við útskriftina í FS, foreldrarnir eru Ásgerður Þorgeirsdóttir og Júlíus Valgeirsson.
Guðlaug Björt sópaði að sér verðlaunum og útskrifaðist með 9,5 í meðaleinkunn og lauk námi á 3 árum.
Verðlaunahafar við útskrift FS.
Fleiri skemmtilegar myndir má sjá á heimasíðu FS.