Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Guðjón Þórðarson kominn hálfa leið til Keflavíkur
Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 17:45

Guðjón Þórðarson kominn hálfa leið til Keflavíkur

Nýr þjálfari og nýir leikmenn keyptir til að styrkja liðið: „Stefnum hátt og ætlum að gera Keflavík að meistaraliði", segir Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar

„Við erum mjög bjartsýnir að Guðjón komi. Það skýrist um helgina og það getur ekki beðið lengur fyrir okkur. Ef við fáum neikvætt út úr því snúum við okkur annað", sagði Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur.
Þegar Rúnar var inntur eftir því hver væri næstur í röðinni kæmi Guðjón ekki, vildi hann ekki svara því. „En það er ekkert launungarmál. Við erum með í erminni mögulega lausn ef Guðjón kemur ekki".
Það er mikill hugur í Keflvíkingum og ráðning Guðjóns er hugsuð sem liður í því að færa liðið ofar og búa til meistaralið, lið sem myndi vinna titla. Talað er um að Keflavík þurfi að kaupa 2-4 leikmenn til að svo geti orðið og Rúnar staðfesti þessa umræðu og sagði að það væri mikill hugur í Keflvíkingum og stuðningsmönnum þeirra.
„Það er kominn tími á fleiri titla. Það gengur ekki að liðið sé bara að skila bikar í hús á 20-30 ára fresti. Við viljum breyta því".
Aðspurður um fjárhagslegt „bakland" sagði hann það vera til staðar, bæði hvað varðar ráðningu Guðjóns og leikmannakaup.
„Við höfum fulla ástæðu til að vera bjartsýnir varðandi Guðjón sem og framtíð fótboltans hér. Við erum með góðan efnivið, knattspyrnuhús og allar aðstæður hér á svæðinu til að færa knattspyrnuna á þann stall sem hún á að vera á hérna".
Heimildamaður blaðsins segir að í raun sé samningur við Guðjón tilbúinn fyrir utan minniháttar smáatriði. Guðjón sé miklu spenntari fyrir því að koma til Keflavíkur en til Grindavíkur. „Keflavíkurliðið þarf ekki marga leikmenn til að styrkja sig verulega en Grindvíkingar eiga mun lengra í land með sitt lið. Svo er Keflavík í Evrópukeppni og það heillar Guðjón örugglega. Hann er ekki fyrir neina meðalmennsku. Ég held að þetta klárist örugglega um helgina".
Heimildamaður okkar sagði Keflvíkinga ekki svíða það neitt þó þeir „hirði" Guðjón af Grindvíkingum sem fengu Jankovic, fyrrverandi þjálfara Keflavíkur. Sú framkoma hans þegar hann hætti í haust fór illa í Keflvíkinga og er m.a. talin eiga þátt í því að Grindvíkingum var „hent út" úr Reykjneshöllinni en þar voru þeir með æfingatíma.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024