Guðfaðir knattspyrnunnar borinn til grafar
Mikið fjölmenni fylgdi Hafsteini Guðmundssyni til grafar í dag frá Keflavíkurkirkju. Það voru fyrrum félagar Hafsteins úr gullaldarliði Keflavíkur sem báru kistu Hafsteins, en það voru þeir: Steinar Jóhannsson, Jón Jóhannsson, Guðni Kjartansson, Einar Gunnarsson, Ástráður Gunnarsson, Karl Hermannsson, Sigurður Albertsson og Jón Ólafur Jónsson.
Hafsteinn var m.a. formaður Knattspyrnuráðs Keflavíkur í mörg ár og var í forystu þegar uppgangur knattspyrnunnar í Keflavík var sem mestur. Hann varð síðar landsliðseinvaldur Íslands í knattspyrnu. Hann lék fjóra landsleiki, var stjórnarmaður KSÍ í fjögur ár og landsliðsnefndarmaður áður en hann varð einvaldur.
Hafsteinn var m.a. sæmdur heiðurskrossi KSÍ á fimmtugsafmæli sínu 1973 sem er æðsta heiðursviðurkenning KSÍ. Hann var sæmdur gullmerki Keflavíkur árið 2008. Þá Hafsteinn var sæmdur riddarakrossi af forseta Íslands um síðustu áramót, heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir forystu á vettvangi íþróttastarfs á Suðurnesjum og víðar. Oft var Hafsteinn einnig nefndur guðfaðir knattspyrnunnar í Keflavík.