Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Guðbrandur kærir til umboðsmanns alþingis
Föstudagur 23. nóvember 2007 kl. 10:19

Guðbrandur kærir til umboðsmanns alþingis

Guðbrandur Einarsson bæjarfulltrúi A-listans í Reykjanesbæ hefur leitað álits umboðsmanns alþingis á vinnubrögðum Árna Sigfússonar bæjarstjóra og meirihluta sjálfstæðismanna við sölu hlutar í Hitaveitu Suðurnesja. Þetta kemur fram á vef Samfylkingarinnar í morgun.

Í bréfinu til umboðsmanns Alþingis rekur Guðbrandur að sala eignarhlutar bæjarins í HS, sem nam 5%, hafi ekki verið tekinn fyrir í bæjarráði eða bæjarstjórn þegar salan fór fram og að sölusamningurinn hafi ekki verið undirritaður með fyrirvara um samþykki bæjarráðs eða bæjarstjórnar. Samningurinn hafi fyrst verið lagður fyrir bæjarráð Reykjanesbæjar 15. nóvember, fjórum mánuðum eftir að hann var gerður og þá að kröfu bæjarfulltrúa af A-lista.

Guðbrandur skýrir umboðsmanni alþingis frá því að þegar spurt var um ástæður þess að samningurinn kom aldrei til afgreiðslu hafi svörin verið þau að hann grundvallaðist á viljayfirlýsingu eiganda Hitaveitu Suðurnesja sem var lögð fyrir bæjarráð 12. júlí og samþykkt þar með atkvæðum Sjálfstæðisflokksins gegn atkvæðum borgarfulltrúa af A-lista.

Guðbrandur hafi gert athugasemd við þessa málsmeðferð á bæjarstjórnarfundi 6. nóvember þar sem í viljayfirlýsingunni sé þess hvergi getið að Reykjanesbær selji OR hlut sinn. Því hefði átt að undirrita þennan samning með fyrirvara um samþykki bæjarráðs og taka hann síðan þar til afgreiðslu.

„Ég tel ljóst af ofangreindu að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga og bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hafi verið brotnar,“ segir Guðbrandur í bréfi sínu til umboðsmanns Alþings.

VF-mynd/elg - Guðbrandur og Árni hafa tekist á um málefni HS síðustu mánuði. Á myndinni er Guðbrandur í pontu á bæjarstjórnarfundi og Árni hlýðir spakur á.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024