Guðbrandur hættir
Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, hefur tilkynnt kjörnefnd Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ að hann segi sig frá því sæti sem hann hlaut í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ þann 27. febrúar sl.
„Tildrög eru þau að ég hef verið oddviti A listans undanfarin 4 ár og sóttist eftir því að fá að starfa áfram sem slíkur fyrir Samfylkinguna nú þegar ákveðið hefur verið að bjóða fram í hennar nafni í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Niðurstaða prófkjörs varð hins vegar með öðrum hætti en ég óskaði mér og hafði vænst, þar sem ég hlaut ekki brautargengi sem slíkur og annar kjörinn í minn stað. Þetta eru mér vissulega vonbrigði en ég virði að sjálfsögðu þessa niðurstöðu. En ég tel rétt á þessu stigi að víkja sæti og veita ny´rri forystu tækifæri til að koma í framkvæmd breytingum og taka upp ny´ vinnubrögð sem ny´kjörinn oddviti boðaði í aðdraganda prófkjörs.
Þetta er ekki auðveld ákvörðun fyrir mig að taka, sérstaklega með tilliti til þeirra aðila sem veittu mér stuðning og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka þeim sérstaklega. Við þá vil ég segja að ég mun reyna eins og kostur er að halda á lofti merkjum jafnaðarstefnunar og vinna að framgangi hennar þótt það verði með öðrum hætti og á öðrum vettvangi.
Ég vil að lokum óska flokknum mínum og fulltrúum hans velfarnaðar í þeirri baráttu sem framundan er.
Með vinsemd
Guðbrandur Einarsson“.