Guðbjörg ráðin aðstoðarskólastjóri í Grindavík
Guðbjörg M. Sveinsdóttir hefur verið ráðin nýr aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Grindavíkur. Á fundi bæjarráðs 9. maí síðastliðinn var samþykkt tillaga skólastjóra um að auglýsa aðstoðarskólastjórastöðu við Grunnskóla Grindavíkur. Staðan var auglýst laus til umsóknar og rann umsóknarfrestur út 24. maí síðastliðinn.
Umsækjendur um stöðuna voru sex. Skólastjóri og sviðsstjóri félagsþjónustu- og fræðslusviðs tóku viðtöl við alla umsækjendur og lögðu mat á umsóknir. Við mat á umsækjendum var stuðst við gátlista þar sem m.a. er litið til menntunar umsækjenda, starfsreynslu, reynslu af faglegri forystu og skólaþróun. Einnig var leitast við að leggja mat á umsækjendur út frá hæfniskröfum sem voru m.a. samkvæmt auglýsingu frumkvæði og samstarfsvilji, góðir skipulagshæfileikar og hæfni í mannlegum samskiptum. Auk viðtala við umsækjendur var stuðst við viðtöl við umsagnaraðila með tilliti til færniþátta.
Að lokinni úrvinnslu var niðurstaðan að bjóða Guðbjörgu M Sveinsdóttur starfið. Guðbjörg hefur lýst sig reiðubúna til að ráða sig í starf aðstoðarskólastjóra Grunnskóla Grindavíkur.
Auk grunnskólakennaraprófs hefur Guðbjörg lokið námi í náms- og starfsráðgjöf og MPA námi í opinberri stjórnsýslu. Hún hefur mikla reynslu af kennslu í grunnskóla, var rekstrar- og grunnskólafulltrúí á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar í 15 ár og staðgengill fræðslustjóra. Hún starfar nú sem náms- og starfsráðgjafi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.