Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Guðbergur Bergsson heiðraður
Miðvikudagur 29. maí 2013 kl. 07:32

Guðbergur Bergsson heiðraður

Blásið verður til málþings til heiðurs Guðbergi Bergssyni laugardaginn 1. júní í tilefni af stórafmæli skáldsins. Málþingið, sem ber yfirskriftina Að heiman og heim, er haldið á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og er liður í Listahátíð í Reykjavík 2013.

Á þinginu, sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands, verður sjónum beint að verkum Guðbergs í alþjóðlegu samhengi og sækir glæsilegur hópur erlendra fræðimanna, rithöfunda og þýðenda Ísland heim til heiðurs skáldinu en einnig munu íslenskir fræðimenn og rithöfundar taka þátt í dagskránni. Meðal þess sem ber á góma eru þýðingar á verkum Guðbergs, fagurfræði hans og „leitin að landinu fagra“, samtal skáldskapar hans við verk yngri skálda og sá leiðangur sem list skáldsins hefur bæði tekist á hendur og fer með lesandann í.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á málþinginu tekur Guðbergur jafnframt við heiðursdoktorsnafnbót við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.

Að þinginu standa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Íslenskudeild Manitoba-háskóla, Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands, Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík - Bókmenntaborg UNESCO og Forlagið. Styrktaraðilar ráðstefnunnar eru Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið og Grindavíkurbær. Viðburðurinn fer fram í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík. Þingið stendur frá kl. 09:45 til 16:30 og er öllum opið á meðan húsrúm leyfir.