Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Laugardagur 17. apríl 2004 kl. 12:20

Guðbergur Bergsson gerður að heiðursborgara Grindavíkur

Samþykkt var á hátíðarfundi bæjarstjórnar Grindavíkur í dag að gera rithöfundinn Guðberg Bergsson að heiðursborgara Grindavíkur, í tilefni af 30 ára kaupstaðarafmæli bæjarins.

Í bókun bæjarstjórnar sem lögð var fram á fundinum kemur meðal annars fram að afmælið gefi tilefni til að líta um öxl og heiðra borgara sem hafi náð einstökum árangri á sviði bókmennta og borið hróður Grindavíkur og Íslands víða um heim.
„Guðbergur Bergsson er fæddur á Ísólfsskála í Grindavík 16. október 1932. Árið 1936 flutti Guðbergur með foreldrum sínum frá Ísólfsskála í Þórkötlustaðarhverfið. Þar fékk hann hefðbundið uppeldi í leik, námi og vinnu. Guðbergur lauk tveggja vetra námi í héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði og að því loknu fór hann í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi,“ segir meðal annars í bókuninni.

Þar kemur fram að fyrsta skáldsaga Guðbergs, Músin sem læðist hafi komið út árið 1961 og frá þeim tíma hafi Guðbergur samið fjöldann allan af skáldsögum, smásögum og ljóðum. Þá hafi hann þýtt mikið af spænskum og suðuramerískum bókmenntum, auk þess sem bækur Guðbergs hafa verið þýddar á önnur tungumál.

Fyrir ritstörf sín hafi Guðbergur fengið viðurkenningar, svo sem Silfurhestinn, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Íslensku fálkaorðuna og nú síðast Bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar sem hann tók við í Stokkhólmi 14. apríl síðastliðinn.

„Í sögum Guðbergs eru oft vísanir til æskuslóða hans hér í Grindavík og hefur Guðbergur ávallt haldið tengslum við Grindavík og Grindvíkinga og dvelur oft í húsi sínu, Hjarðarholti, hér í bæ,“ segir í bókun bæjarstjórnar.

Telur bæjarstjórnin vel við hæfi að heiðra Guðberg á þessum tímamótum með því að gera hann að heiðursborgara Grindavíkur, en frá þessu er greint á mbl.is.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024