Grýttar með vatnsblöðrum út um bílglugga á hringferð um landið
Vinkonurnar Svanfríður og Árný Sverrisdætur urðu fyrir miður skemmtilegri lífsreynslu fyrir skemmstu þegar þær voru grýttar með vatnsblöðrum en þær hjóla nú umhverfis landið í sumarfríinu sínu.
„Við vorum að hjóla og vorum að koma að brú nálægt Seljalandsfossi þegar ungir menn á silfurgráum jeppa komu á fleygiferð framhjá okkur,“ sagði Svanfríður í samtali við Víkurfréttir. Ungu mennirnir voru með alla glugga opna á bifreiðinni og grýttu vatnsblöðrum í Svanfríði og Árnýju. „Ég fékk þvílíkan dynk á mig og vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, ég hrasaði aðeins til en missti ekki alveg jafnvægið,“ sagði Svanfríður en minnstu munaði að illa færi þar sem Árný og Svanfríður voru að hjóla nálægt brú í vegarkantinum á lausamöl.
Höggið af vatnsblöðrunum var töluvert og kennir Svanfríður sér eymsla í mjöðminni en stöllurnar halda ótrauðar áfram og láta ekki fúlmenni af þessu tagi hafa áhrif á sig. „Það halda allir að við séum útlendingar á ferð um landið en það skiptir ekki máli, ef við komum svona fram við erlenda ferðamenn þá fer þeim örugglega fækkandi hérlendis,“ sagði Svanfríður.
Árný og Svanfríður hjóla nú hringveginn um Ísland en síðustu tvö sumur hafa þær verið að undirbúa þessa ferð með því að hjóla til Akureyrar og á Selfoss um Krísuvíkurleiðina. „Við erum að gera þetta í sumarfríinu okkar,“ sagði Svanfríður en fjölskyldur þeirra eru skilningsríkar og það verða án efa fagnaðarfundir þegar hringferðinni er lokið.
Vinkonurnar hafa komið víða við og nær undantekningalaust er talið að þær séu erlendir ferðamenn. Samræður þeirra við Íslendinga sem þær hitta á förnum vegi hefjast yfirleitt á ensku en það fer ekki fyrir brjóstið á þeim. Stelpunum finnst hins vegar skömm af því að til sé fólk hér á Íslandi sem aki um þjóðvegi landsins og grýti ferðamenn með vatnsblöðrum. Hegðun af þessu tagi sé skaðleg fyrir ímynd landsins og ferðamönnum hættuleg svo ekki sé minnst á barnaleg og óafsakanleg.
Símamynd: Svanfríður og Árný með hjólreiðahjálmana en þær sendu Víkurfréttum þessa mynd af sér úr hjólreiðaferðinni.