Grunur um íkveikju í íbúðarhúsi
Mildi þykir að ekki fór ver en raun ber vitni þegar kveikt var í rusli í kjallara íbúðarhúsnæðis í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Íbúar urðu einskis varir fyrr en stigagangurinn fylltist af reyk. Einn þeirra fór þá niður í kjallara og sá hvers kyns var. Hann sótti slökkvitæki í íbúð sína og tæmdi það á eldinn, en varð að þvi búnu að yfirgefa húsnæðið vegna reykjarkófsins. Frá þessu er greint í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar. Slökkviliðið réð endanlega niðurlögum eldsins og reykræsti húsnæðið. Grunur leikur á að um íkveikju hafi verið að ræða og rannsakar lögregla málið.