Grunuð um ölvun við akstur og olli stórslysi
Ökumaðurinn sem olli slysinu á Reykjanesbraut á Vogastapa í gærkvöldi er grunaður um ölvunarakstur. Átta manns slösuðust í umferðarslysinu. Slysið varð þegar kona keyrði aftan á bifreið á ferð með þeim afleiðingum að bíll hennar valt og hafnaði utan vegar.
Konan var ein í bílnum þegar slysið átti sér stað og var hún flutt með sjúkrabifreið á gjörgæsludeild Landspítalans. Vonir standa til þess að hún verði útskrifuð af gjörgæsludeildinn í dag, en samkvæmt vakthafandi lækni er hún töluvert slösuð að því að fram kemur á vef Vísis.
Sjö voru í bifreiðinni sem ekið var á og voru þeir allir fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Þeir voru þó flestir útskrifaðir í nótt. Slysið átti sér stað á ellefta tímanum í gærkvöldi á Reykjanesbrautinni, milli Grindarvíkurvegar og Voga, en báðar bifreiðar óku í átt til Reykjavíkur. Einhverjar tafir urðu á umferð vegna slyssins en loka þurfti hluta Reykjanesbrautar um stund. Fjöldi sjúkrabifreiða kom að flutningunum, bæði frá Suðurnesjum og Reykjavík.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er konan sem olli slysinu grunuð um akstur undir áhrifum áfengis.