Grunsamlegur ljósagangur veldur rafmagnsleysi í Höfnum
Íbúar í Höfnum hafa verið án rafmagns í 45 mínútur þegar þetta er skrifað eftir að grunsamlegur ljósagangur olli rafmagnsleysi nú á ellefta tímanum í kvöld. Að sögn starfsmanns hjá rafmagnsdeild Hitaveitu Suðurnesja hefur bilunin sem olli rafmagnsleysinu ekki fundist en unnið er að því að leita hana uppi.
Samkvæmt mælum í aðveitustöð virðist sem bilunin sé neðanjarðar en ekki vitað hvar. Tilkynnt var um grunsamlegan ljósagang við Hafnir og talið að hann hafi valdið rafmagnsleysinu. Íbúi í Höfnum, sem Víkurfréttir ræddu við nú fyrir skömmu, segist ekki hafa orðið var við ljósaganginn, en sitji nú í svartamyrkri og bíði þess að ljósin komist á þennan bæjarhluta Reykjanesbæjar að nýju.
Myndin: Rafmagnskassi sem varð eldi að bráð við Boggabar í Keflavík fyrir nokkrum misserum. Ekki er vitað hvað hafi valdið rafmagnsleysi í Höfnum, sem varir enn þegar þetta er skrifað.