Grunaður fíkniefnasali handtekinn
Umtalsvert magn af fíkniefnum fannst við húsleit sem Lögreglan á Suðurnesjum fór í, með aðstoð sérsveitar Ríkislögreglustjóra, í vikunni. Þá leikur sterkur grunur á að sá sem þar dvaldi hafi stundað sölu fíkniefna.
Þegar lögregla mætti á vettvang var ljóst að mikil fíkniefnaneysla hafði átt sér stað í íbúðinni, þar sem karlmaður á þrítugsaldri dvaldi í óþökk húseiganda. Við húsleitina fundust meint amfetamín, e – töflur, kannabisefni, sterar og fleiri efni víðs vegar um íbúðina ásamt vog og sölupokum. Þá fundust Taser rafstuðtæki og sveðja.
Grunur hafði leikið á að maðurinn væri vopnaður og var sérsveitin því fengin til aðstoðar við húsleitina. Hann var handtekinn ásamt tveimur öðrum er voru gestkomandi á staðnum og fundust einnig fíkniefni hjá hinum síðarnefndu.