Gróðursettu vaxtarsprota í Helguvík
Græna netið, hinn græni armur Samfylkingar og óháðra, og Ungir Jafnaðarmenn gróðursettu í dag, á degi umhverfisins, tvo sólberjatré á framkvæmdasvæði Norðuráls í Helguvík.
Þessa athöfn kalla aðstandendur skóflustungu að nýjum vaxtasprotum á Suðurnesjum.
Dofri Hermannsson, stjórnarmaður í Græna netinu, sagði í samtali við Víkurfréttir að með þessum gjörningi sé verið að minna á hin fjölmörgu tækifæri sem bjóðast í atvinnu- og viðskiptalífi Suðurnesja. Ekki sé ráðlegt að setja alla orku sem í boði er á svæðinu í eitt verkefni, þ.e. álver í Helguvík.
Í tilkynningu frá Græna netinu og UJ segir aukinheldur að samkvæmt ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja hafi fyrirtækið þurft að neita mörgum minni fyrirtækjum með orkuþörf upp á 10-50 Mw um orku þar sem öll orka fyrirtækinsins fari til væntanlegs álvers.
Þá er þess getið í tilkynningunni að losun gróðurhúsalofttegunda hjá álveri Norðuráls á Grundartanga hafi fari fram úr áætlunum. Þar er leitt líkum að því að Norðurál sé ekki að nota bestu fáanlegu tækni í þeim málum, og ef svo er hvort réttlætanlegt sé að veita öðru álveri sama fyrirtækis losunarheimildir.
Þess ber að geta að Norðurál hefur lýst því yfir að fyrirtækið sé ósátt við útreikninga Umhverfisstofnunar á útblæstri álversins. Mælingar Norðuráls hafi sýnt mun minni losun.
VF-mynd/Þorgils - Hópurinn við sólberjartrén